Bréf til bjargar lífi!

Í baráttunni fyrir mannréttindabrotum átt þú öflugt vopn. Vopn sem getur breytt heiminum - nafnið þitt!
Nýttu það til að skrifa undir bréf til stjórnvalda sem brjóta mannréttindi.

Bréf þín geta bjargað lífi! Skrifaðu undir núna

Þau þurfa þína hjálp

Þín undirskrift getur bjargað mannslífi
 • Xulhaz Mannan

  Xulhaz Mannan Bangladess – Réttindi hinsegin fólks

  Myrtur með sveðju fyrir að verja réttindi LGBTIQ fólks

  Xulhaz Mannan var í íbúð sinni ásamt samstarfsfélaga sínum þegar ókunnugir karlmenn ruddust inn vopnaðir sveðjum og hjuggu þá til dauða. Xulhaz hafði stofnað eina LGBTIQ tímaritið í Bangladess. Það var mikið hættuspil í landi þar sem samkynhneigð er bönnuð. Þrátt fyrir nægar sannanir, þeirra á meðal upptökur úr eftirlitsbúnaði og vitnisburð sjónarvotta, hafa morðingjarnir enn ekki verið ákærðir, ári síðar, fyrir þetta hrottafengna morð.

  Lesa nánar
 • Hanan Badr el-Din

  Hanan Badr el-Din Egyptaland – Mannshvörf

  Handtekin fyrir að leita að týndum eiginmanni sínum 

  Þegar eiginmaður Hanan Badr el-Din hvarf í júlí 2013 breyttist líf hennar. Linnulaus leit hennar að eiginmanni sínum leiddi hana til annarra sem höfðu misst ástvini sína í hendur öryggissveita Egyptalands. Nú er hún driffjöður í því að svipta hulunni af hundruðum mannshvarfa í Egyptalandi. Nýjasta leit hennar að upplýsingum um eiginmann sinn varð til þess að hún var handtekin og ranglega ákærð sem þýðir að hún gæti átt yfir höfði sér fimm ára fangelsisdóm. 

   

  Lesa nánar
 • Sakris Kupila

  Sakris Kupila Finnland – Réttindi transfólks

  Krefst réttar til að vera sá sem hann er

  Sakris Kupila hefur aldrei upplifað sig sem konu. Þessi 21 árs læknanemi þarf engu að síður að þola daglega smán vegna þess að á persónuskilríkjum hans stendur skráð að hann sé kona – kynið sem hann fékk úthlutað við fæðingu. Til að unnt sé að fá lagalega kynleiðréttingu í Finnlandi þarf fólk að gangast undir það að vera greint með geðröskun, svo og ófrjósemisaðgerð. Sakris Kupila berst gegn þessari niðurlægjandi meðferð og þrátt fyrir hótanir og fjandskap sem hann hefur mætt á opinberum vettvangi heldur Sakris áfram að krefjast breytinga á lögunum.

  Lesa nánar
 • MILPAH hreyfing frumbyggja

  MILPAH hreyfing Hondúras – Réttindi frumbyggja

  Hætta lífinu til að bjarga landi í sinni eigu

  Líf Lence-frumbyggja í Hondúras veltur að miklu leyti á landinu sem þeir eiga. En eigendur vatnsaflsvirkjunar og námugraftar, ásamt öðrum hagsmunaaðilum, hafa í hyggju að arðræna frumbyggjana. MILPAH, sem táknar Óháð hreyfing Lenca-frumbyggja í La Paz, er í fararbroddi baráttunnar gegn umræddum hagsmunaaðilum. Meðlimir hreyfingarinnar sæta rógsherferðum, líflátshótunum og ofbeldi í baráttu sinni við að vernda landið sitt en gerendurnir eru sjaldan sóttir til saka. 

  Lesa nánar
 • Farid og Issa

  Farid og Issa Ísrael herteknu svæðin – Baráttufólk fyrir mannréttindum

  Standa frammi fyrir tilhæfulausum ákærum fyrir friðsamleg mótmæli

  Farid al-Atrash og Issa Amro vilja binda enda á landnám Ísraels, stríðsglæp sem á rætur að rekja til 50 ára hernáms Ísraels á landi Palestínu. Aðgerðasinnarnir tveir, sem aðhyllast friðsamleg mótmæli, sæta stöðugum árásum af hálfu hermanna og landtökufólks. Í febrúar 2016 fóru Issa og Farid í friðsamlega göngu gegn landnámi og hernámi Ísraels í Palestínu. Í kjölfarið fengu þeir á sig tilhæfulausar ákærur sem greinilega er ætlað að hindra mannréttindastarf þeirra. 

   

  Lesa nánar
 • Shackelia Jackson

  Shackelia Jackson Jamaíka – Lögregluofbeldi

  Neitar að láta lögreglu komast upp með morð 

  Shackelia Jackson neitar að gefast upp. Þegar bróðir hennar, Nakiea, var skotinn til bana af lögreglu árið 2014 lét Shackelia reyna á seinvirkt dómskerfið í Jamaíka. Hún leiðir nú djarfa baráttu til að ná fram réttlæti fyrir morðið á bróður sínum. Í þeim tilgangi hefur hún m.a. virkjað tugi fjölskyldna til aðgerða, fjölskyldur sem misst hafa ástvini með sama hætti. Viðbrögð lögreglu eru síendurtekin áhlaup og áreitni gegn samfélaginu sem Shackelia tilheyrir en hún neitar að láta þagga niður í sér.  

  Lesa nánar
 • Ni Yulan

  Ni Yulan Kína – Þvingaður brottflutningur

  Borin út og áreitt fyrir að verja réttinn til húsnæðis 

  Ni Yulan hefur mætt ofbeldi í árafjöld fyrir að verja réttinn til húsnæðis. Sem fyrrverandi lögfræðingur hefur hún aðstoðað fjölda fólks sem neytt hefur verið til að rýma heimili sín vegna ábatasamra byggingarverkefna. Kínversk stjórnvöld hafa brugðist við með því að hafa eftirlit með henni, ofsækja og fangelsa hana, auk þess sem þau hafa margoft þvingað hana brott af eigin heimili. Í eitt skipti var hún barin svo illa að hún neyðist til að nota hjólastól í dag. Ni Yulan gefst engu að síður ekki upp á að styðja fólk í því að standa á rétti sínum. Nú er komið að okkur að veita henni stuðning.

  Lesa nánar
 • Clovis Razafimalala

  Clovis Razafimalala Madagaskar – Tjáningarfrelsi

  Dæmdur fyrir að vernda regnskóg í hættu 

  Clovis Razafimalala leggur sig allan fram við að vernda hverfandi regnskóg Madagaskar. Rósaviðartré eru dýrmæt auðlind sem er í hættu vegna spilltra smyglara sem svífast einskis í ólöglegum viðskiptum sem skila milljarða dollara gróða.

  Djarfar tilraunir Clovis til bjargar þessum sjaldgæfu, rúbínrauðu trjám hafa beint óæskilegri athygli að honum. Hann var dæmdur vegna rangra sakargifta og gæti farið í fangelsi hvað af hverju.  

   

   

   

  Lesa nánar
 • Mahamat Babouri (Mahadine)

  Mahamat Babouri Tsjad – Tjáningarfrelsi

  Á yfir höfði sér lífstíðarfangelsi fyrir myndbönd á Facebook 

  Hann er aðgerðasinni á netinu og sjö barna faðir. Í september 2016 setti Tadjadine Mahamat Babouri, sem er þekktur undir nafninu Mahadine, inn myndbönd á Facebook þar sem stjórnvöld í Tsjad voru gagnrýnd. Nokkrum dögum síðar var hann gripinn á götunni, síðan barinn og sat hlekkjaður vikum saman. Hann á yfir höfði sér lífstíðarfangelsi og er alvarlega veikur eftir að hafa smitast af berklum í fangelsi. Hann þarfnast lífsnauðsynlega læknismeðferðar. Hann á ekki að verða fyrir frelsisskerðingu fyrir það að hafa kjark til að tjá skoðun sína.  

  Lesa nánar
 • Istanbúl 10 og Taner

  Istanbúl 10 og Taner Tyrkland – Tjáningar- og fundafrelsi

  Fangelsuð fyrir að verja mannréttindi  

  Ellefu einstaklingar, sem varið hafa lífi sínu í að verja mannréttindi blaðamanna, aðgerðasinna og annarra sem þora að andmæla óbreyttu ástandi í Tyrklandi, eru sjálfir í hættu. Meðal þeirra eru Taner Kılıç, formaður Tyrklandsdeildar Amnesty International, og Idil Eser, framkvæmdastjóri Tyrklandsdeildar Amnesty International. Allir þessir einstaklingar eru fyrir rétti vegna gruns um að hafa framið glæp í nafni hryðjuverkasamtaka. Þetta er ekkert annað en fáránleg tilraun af hálfu tyrkneskra stjórnvalda til að stöðva mannréttindabaráttu þessa fólks.

  Lesa nánar

Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.