Fréttir

1. september 2022

Afhending undir­skrifta til utan­rík­is­ráð­herra Íslands

Anna Lúðvíks­dóttir fram­kvæmda­stjóri Íslands­deildar Amnesty Internati­onal og Þórunn Pálína Jóns­dóttir lögfræð­ingur deild­ar­innar afhentu Þórdísi Kolbrúnu Reyk­fjörð Gylfa­dóttur utan­rík­is­ráð­herra ákall með 1630 undir­skriftum þann 31. ágúst. Í ákallinu eru íslensk stjórn­völd hvött til þess að beita sér á alþjóða­vett­vangi til stuðn­ings kven­rétt­indum í Afgan­istan. Þar var sérstak­lega nefnt að það verði að eiga samtal við kven­rétt­inda­frömuði og kven­kyns aðgerða­sinna frá Afgan­istan til að fræðast um það hvernig best megi efla kven­rétt­indi þar í landi, ráðstafa fjár­magni í verk­efni og starf­semi sem styrkir stöðu kven­rétt­inda í Afgan­istan og þegar tæki­færi gefast nota samn­ings­stöðu sína við talíbana til að ítreka mikil­vægi kven­rétt­inda.

Frá því að talíbanar náðu völdum í Afgan­istan þann 15. ágúst 2021 hefur líf fólksins í landinu breyst en skerðing á rétt­indum kvenna og stúlkna er sérstak­lega afger­andi.

Afganskar konur gegndu embætt­is­störfum, gengu í skóla og háskóla, ráku fyrir­tæki og gátu starfað í öllum atvinnu­geirum. Nú er flestum konum meinað um þátt­töku í atvinnu­lífinu á þeim forsendum að það eigi eftir að setja lög um það. Stúlkum eldri en 10 ára er meinað að ganga í grunn­skóla og konur eiga erfitt með háskólanám þar sem gilda stífar reglur um aðskilnað kynja.

Eftir afhend­inguna áttu full­trúar Amnesty gott samtal við utan­rík­is­ráð­herra, Þórlind Kjart­ansson aðstoð­ar­mann ráðherra og Guðrúnu Þorbjörns­dóttur sérfræðing á alþjóða- og þróun­ar­sam­vinnu­skrif­stofu ráðu­neyt­isins. Samtalið barst meðal annars að hörmu­legum aðstæðum fólks á flótta frá Afgan­istan bæði í Íran og Tyrklandi þar sem það sætir ofbeldi, pynd­ingum og ólög­mætum endur­send­ingum aftur til Afgan­istan eins og greint er frá í nýrri skýrslu Amnesty Internati­onal. Að lokum var rætt um hve mikil­vægt er að halda mann­rétt­inda­bar­átt­unni áfram, einnig í löndum þar sem staða mann­rétt­inda hefur almennt verið talin góð.

 

Lestu einnig