Fréttir

16. september 2020

Aftökur án dóms og laga

Í litlu þorpi í borg­inni Quezon á Filipps­eyjum varar prest­urinn Robert Reyes íbúana við ógn sem er sýnu verri en kórónu­veirufar­ald­urinn, ítrek­aðar aftökur án dóms og laga. Á aðeins hálfs mánaðar tíma­bili jarð­setti séra Reyes þrjú fórn­ar­lömb sem voru tekin af lífi án dóms og laga á svæðinu. Eitt þeirra var Gilbert Paala, 49 ára gamall sölu­maður, sem hafði nýverið lokið 10 ára fang­elsisafplánun fyrir brot á lögum um vímu­efni. Stutt var síðan hann hóf að sjá fyrir fjöl­skyldu sinni að nýju. Hann var tekinn af lífi þann 20. júlí 2020.

 

Í fyrra hitti ég Marissu Lazaro, móður Christophers filipps­eysks drengs sem kvöld eitt árið 2017 kom ekki heim. Þegar hún hóf að leita hans hjá lögreglu kom í ljós að hann hafði verið tekinn af lífi án dóms og laga í aðgerðum lögreglu í „stríðinu gegn fíkni­efnum”. Hann var tvítugur þegar hann var myrtur. Þegar hún deildi sögu sonar síns, um þau grimmi­legu örlög sem hann hlaut, hvernig lífi fjöl­skyld­unnar var snúið á hvolf, óttann og að hvergi væri rétt­læti að finna, var ekki annað hægt en að gráta með henni en finna einnig þann mikla styrk sem hún býr yfir. Saga þessa drengs og fjöl­skyldu hans er aðeins ein af þúsundum.

Þrátt fyrir að kast­ljós alþjóða­sam­fé­lagsins hafi í auknum mæli beinst að grafal­var­legum mann­rétt­inda­brotum undir stjórn Duterte í „stríðinu gegn fíkni­efnum” viðgangast þau enn og ekki sér fyrir endann á þeim. Hinn mikli fjöldi aftaka án dóms og laga á Filipps­eyjum gerðist ekki af sjálfu sér heldur vegna stefnu ríkisins sem mörkuð var í efstu embættum. Duterte sjálfur hefur margsinnis hvatt til drápa á fólki tengdu fíkni­efna­heim­inum. Hann segir: „Fyrir­skipun mín er að þið verðið skotin til bana. Trúið mér þegar ég segi að mann­rétt­indi skipta mig engu máli.“

 

 

Refsi­leysið er nánast algjört og aðeins örfá dæmi eru um að gerendur hafi verið dregnir til ábyrgðar. Forseti landsins og annað hátt­sett embætt­is­fólk heldur áfram að hvetja lögreglu til aftaka án dóms og laga. Refsi­leysið skapar ugg og ótta hjá þolendum, svo sem fjöl­skyldum fórn­ar­lamba „stríðsins gegn fíkni­efnum“ og öðrum sem berjast fyrir mann­rétt­indum í landinu og þóknast ekki yfir­völdum.

Það veltur á alþjóða­sam­fé­laginu undir forystu mann­rétt­inda­ráðs Sameinuðu þjóð­anna að taka áþreif­anleg og haldbær skref til þess að stemma stigu við þessi mann­rétt­inda­brot.

Þegar Ísland leiddi ályktun í mann­rétt­inda­ráði Sameinuðu þjóð­anna árið 2019 vegna stöðu mann­rétt­inda á Filipps­eyjum var það í fyrsta skipti í sögu ráðsins sem ályktun um Filipps­eyjar var lögð fram. Amnesty Internati­onal, önnur alþjóðleg mann­rétt­inda­samtök, alþjóða­sam­fé­lagið í Genf og filipps­eyskir borg­arar fögnuðu fram­taki íslenskra stjórn­valda þar sem þau sýndu í verki hve máttug smáríki eru þegar kemur að því að láta til sín taka í barátt­unni fyrir bættri stöðu mann­rétt­inda um allan heim.

Forysta Íslands markaði tímamót. Í kjöl­farið kom út skýrsla mann­rétt­inda­stofn­unar Sameinuðu þjóð­anna sem varpaði ljósi á hvernig mann­rétt­indi eru fótum troðin undir stjórn Dutertes, m.a. með víðtækum og kerf­is­bundnum aftökum þúsunda einstak­linga án dóms og laga vegna gruns um brot á lögum um vímu­efni. Skýrslan fjallaði einnig um það refsi­leysi sem viðgengst vegna morð­anna og að nánast enginn hefur verið dreginn til ábyrgðar fyrir þessi voða­verk. Fjöl­skyldur fórn­ar­lambanna upplifa vanmátt og úrræða­leysi þar sem hindr­an­irnar í átt að rétt­læti eru nánast óyfir­stíg­an­legar enda bera stjórn­völd ábyrgð á órétt­lætinu.

 

Á síðustu fjórum árum hafa mann­rétt­inda­samtök, Amnesty Internati­onal þar á meðal, greint frá því að margar aftökur án dóms og laga eru fram­kvæmdar af lögreglu eða leyniskyttum sem fá greiðslu frá lögreglu fyrir morðin. Ekki er nóg með að stjórn­völd leyfi þessu að viðgangast refsi­laust heldur verð­launa þau jafnvel fyrir aftök­urnar með því að veita gerendum stöðu­hækk­anir eða annars konar viður­kenn­ingu.

Þróun síðustu mánaða hefur síst verið til hins betra þegar kemur að mann­rétt­indum. Mann­rétt­inda­fröm­uð­urinn Zara Alvarez og frið­arsinninn Randall Echanis voru myrt með viku milli­bili í ágúst. Á aðeins hálfu ári voru yfir 100 þúsund einstak­lingar hand­teknir í aðgerðum stjórn­valda til að takast á við kórónu­veirufar­ald­urinn, harð­neskjuleg löggjöf gegn hryðju­verkum var samþykkt og forsetinn hefur ítrekað kallað eftir því að dauðarefs­ingar verði teknar upp að nýju í landinu.

Mann­rétt­inda­ráðið kemur saman í Genf nú í sept­ember og mun taka þar ákvarð­anir um hvernig skuli bregðast við þeirri dökku mynd sem skýrsla mann­rétt­inda­stofn­unar dregur upp af ástandinu á Filipps­eyjum.

Ályktun ráðsins um Filipps­eyjar og skýrsla Sameinuðu þjóð­anna sem fylgdi í kjöl­farið voru mikilvæg fyrstu skref í átt að því að taka á því ófremd­ar­ástandi sem ríkir í landinu. Þúsundum fjöl­skyldna sem hafa misst ástvini sína í „stríðinu gegn fíkni­efnum“ var veitt von og skilaboð til stjórn­valda og gerenda voru skýr um að kast­ljósi alþjóða­sam­fé­lagsins væri nú beint að þeim brotum sem þarna eiga sér stað og þau verði ekki látin óátalin.

 

Þó að ákveðinn áfanga­sigur hafi verið unninn með gerð álykt­un­ar­innar og útgáfu skýrslu Sameinuðu þjóð­anna er eftir­fylgnin ekki síður mikilvæg. Hver verða viðbrögð alþjóða­sam­fé­lagsins við þeim brotum sem skýrslan greinir frá? Mann­rétt­inda­samtök og Filipps­ey­ingar horfa til Íslands og mann­rétt­inda­ráðsins alls í þeirri von að gripið verði til raun­veru­legra aðgerða til að stemma stigu við það ástand sem ríkir á Filipps­eyjum. Nú er mál að linni.

Grein birtist sem Skoðun á vísir.is þann 16.9. 2020. Höfundur er fram­kvæmda­stjóri Íslands­deildar Amnesty Internati­onal.

Lestu einnig