Yfirlýsing

6. september 2022

Ákall um samráð við gerð frum­varps til breyt­inga á útlend­inga­lögum

Nú liggur fyrir að Jón Gunnars­son, dóms­mála­ráð­herra, muni leggja fram frum­varp um breyt­ingar á lögum um út­lend­inga í fimmta sinn á haust­þingi Al­þingis og mun frum­varpið vera eitt af fyrstu þing­málunum.

Hinn 19. maí sl. lýsti mikill meiri­hluti undir­ritaðra aðila yfir á­huga og vilja á því að koma á sam­ráði og sam­vinnu um mótun laga í mála­flokknum en án árangurs. Líkt og fram kom í vilja­yfir­lýsing­unni er nauð­syn­legt að út­lend­inga­lög­gjöfin verði þróuð á­fram af á­byrgð og raun­sæi til fram­tíðar. Til að tryggja víð­tæka sátt sé mikil­vægt að auka traust og gagn­sæi um á­kvarð­anir út­lend­inga­yfir­valda, sem og móta skýra og heild­stæða stefnu í mála­flokknum, enda væri það í anda stjórnar­sátt­mála nú­verandi ríkis­stjórnar og mark­miða hennar.

Í um­sögnum um fyrri út­gáfu frum­varpsins lýstu um­sagnar­aðilar frá stofn­unum og sam­tökum yfir skorti á sam­ráði við gerð frum­varpsins auk veru­legra van­kanta á efni þess. Á­ríðandi er að mikil­vægar laga­breyt­ingar í mála­flokknum séu unnar í sam­ráði og sam­tali við aðila sem starfa við mála­flokkinn og hafa til þess sér­þekk­ingu og reynslu. Við vinnslu frum­varpsins sem lagt var fram í vor var lítið horft til þess en nú­gild­andi lög um út­lend­inga sem tóku gildi í upp­hafi árs 2017 voru unnin í þver­póli­tísku og þver­fag­legu sam­ráði við hag­aðila í mála­flokknum. Mikil­vægt er að verndar­kerfið sé í stakk búið til að mæta þeim að­stæðum sem uppi eru hverju sinni en það er ekki síður mikil­vægt að breyt­ingar séu unnar í sátt og sam­ráði við fag­aðila.

Í ljósi framan­greinds óskum við undir­rituð eftir því með þessari sam­eigin­legu yfir­lýsingu að áður en lög sem þessi eru mótuð og skrifuð að sam­ráð verði haft við alla þá hags­muna­aðila sem að mála­flokknum koma svo lögin tryggi að rétt­indi þeirra sem sækja um al­þjóð­lega vernd séu vernduð og virt í hví­vetna. Þá fyrst verður hægt að ná þeirri þver­fag­legu sátt sem tókst við mótun fyrri laga.

Við skorum því á ríkis­stjórnina að dýpka sam­talið og sam­ráðið og skipa starfs­hóp með full­trúum hags­muna­aðila í mála­flokknum svo hægt verði að ná þeirri fag­legu sátt sem áður hefur tekist við mótun laganna.

 

Alþýðu­sam­band Íslands
Barna­heill – Save the Children á Íslandi
Geðhjálp
Hjálp­ar­starf kirkj­unnar
Íslands­deild Amnesty Internati­onal
Kven­rétt­inda­félag Íslands
Lands­sam­tökin Þroska­hjálp
Mann­rétt­inda­skrif­stofa Íslands
Rauði krossinn á Íslandi
Samtökin 78
Siðmennt
WOMEN in Iceland
UN Women á Íslandi
UNICEF á Íslandi
ÖBÍ

Lestu einnig