Fréttir

16. desember 2022

Blekking FIFA um bætur fyrir farand­verka­fólk

Alþjóðaknatt­spyrnu­sam­bandið FIFA hefur enn og aftur brugðist mann­rétt­inda­skyldum sínum með því að skuld­binda sig ekki til að tryggja bætur handa farand­verka­fólki og fjöl­skyldum þess vegna mann­rétt­inda­brota í tengslum við undir­búning fyrir heims­meist­ara­mótið í knatt­spyrnu 2022 í Katar. Þetta kemur fram í sameig­in­legri yfir­lýs­ingu frá Amnesty International, Human Rights Watch, FairSquare og Equidem í aðdrag­anda úrslita­leikja í HM. 

Frá því í júní á þessu ári hafa samtökin kallað eftir bótum fyrir farand­verka­fólk. Í kjöl­farið gaf FIFA til kynna að sambandið myndi skuld­binda sig til að finna leiðir til að greiða bætur vegna dauðs­falla, líkams­tjóns og útbreidds launa­þjófnaðs og styðja við uppbygg­ingu stuðningsmiðstöðvar fyrir farand­verka­fólk. Rétt fyrir mótið hafði FIFA aftur á móti ekki sett fram neina áætlun um að fara í slíka vinnu og tilkynnti í staðinn nýjan sjóð (e.Legacy fund) þar sem ekki er ákvæði um bætur fyrir verka­fólk. Sjóð­urinn er gerður til þess að styrkja menntun í þróun­ar­löndum

Erfitt fyrir farandverkafólk að fá bætur í Katar

„Verka­fólk í þúsundum talið hefur þurft að borga ólög­legt þókn­un­ar­gjald, launum þess stolið og það jafnvel látið lífið til að arðbær­asti íþrótta­við­burð­urinn gæti orðið að veru­leika. Það væri svívirði­legt ef sjóður FIFA legði ekki sitt af mörkum og veiti bætur fyrir skaða verka­fólksins.“

Steve Cockburn hjá Amnesty Internati­onal. 

Gianni Infantino, forseti FIFA, viðhafði einnig misvís­andi ummæli um að verka­fólk gæti einfald­lega fengið bætur í gegnum núver­andi kerfi í Katar. Það kerfi ræður þó ekki við að greiða bætur af þessari stærð­ar­gráðu vegna dauðs­falla, líkams­tjóns og launa­þjófn­aðar. 

Frá 2020 hefur stuðn­ings- og trygg­inga­sjóður verka­fólks í Katar greitt bætur til verka­fólks vegna launa­þjófn­aðar atvinnu­veit­anda í kjölfar niður­stöðu dómstóla. Þessi sjóður getur þó ekki að neinu ráði bætt fyrir dauðs­föll, líkams­tjón og launa­þjófnað sem áttu sér stað allt að áratug áður en sjóð­urinn varð til.

 

Auk þess er mikill meiri­hluti dauðs­falla skráður af völdum nátt­úru­legra orsaka eða hjarta­stopps sem er ein stærsta hindr­unin fyrir fjöl­skyldur hinna látnu til að sækja bætur. Samkvæmt vinnu­lög­gjöf Katar er atvinnu­veit­endum aðeins skylt að greiða bætur fyrir vinnu­tengd dauðs­föll og líkams­tjón. 

FIFA getur enn brugðist rétt við með því að nota Legacy-sjóðinn í þágu verka­fólks og fjöl­skyldu þess, styðja af heilum hug við stuðn­ings­mið­stöð fyrir verka­fólk og tryggja að verka­fólkið hafi aðgang að bótum sem það á skilið. Með breyttri stefnu gæti FIFA skipt sköpum í lífi verka­fólks sem eru hinar sönnu hetjur heims­meist­ara­mótsins. Að neita því er hrika­legur áfell­is­dómur um skuld­bind­ingu FIFA í þágu vinnu­réttar verka­fólks.“

Steve Cockburn hjá Amnesty Internati­onal. 

Skyldur FIFA

Áætlað er að tekjur FIFA vegna heims­meist­ara­mótsins verði 7,5 millj­arður banda­ríkja­dollara og samkvæmt leið­bein­andi megin­reglum Sameinuðu þjóð­anna um viðskipti og mann­rétt­indi ber sambandinu skylda til að sinna mann­rétt­inda­skyldum sínum óháð því hvort að viðkom­andi ríki geti eða vilji sinna sínum skyldum. FIFA hefur ekki gefið út opin­bera skýr­ingu á því hvers vegna sambandið hefur vísað tillögum um bætur á bug. 

 Alþjóðaknatt­spyrnu­sam­bandið brást skyldu sinni árið 2010 þegar Katar var valið án þess að fram­kvæma mat um áhrif á mann­rétt­indi þar í landi. Auk þess hefur sambandið ekki gripið til skil­virkra aðgerða með tíman­legum hætti til að draga úr og bæta fyrir mann­rétt­inda­brot.  

Nú í lok heims­meist­ara­mótsins kallar Amnesty Internati­onal í samstarfi við Human Rights Watch, FairSquare og Equidem eftir því að nýi Legacysjóður á vegum FIFA verði einnig notaður til að fjár­magna bætur fyrir verka­fólk og fjöl­skyldur hinna látnu.  

Lestu einnig