Fréttir

10. apríl 2019

Dauðarefs­ingin: Árleg skýrsla Amnesty Internati­onal 2018

Árleg skýrsla Amnesty Internati­onal um stöðu dauðarefs­ing­ar­innar er komin út. Aftökum á heimsvísu árið 2018 fækkaði um þriðjung frá árinu áður og fjöldi aftaka var með allra lægsta móti í áratug.

„Þessi mikla fækkun á alþjóða­vísu sýnir að jafnvel ólík­leg­ustu lönd eru farin að breyta högum sínum og átta sig á því að dauðarefs­ingin er ekki rétta svarið. Þrátt fyrir skref aftur á bak í sumum tilfellum er veruleg fækkun á aftökum hjá þeim sem hafa staðið sig hvað verst. Það gefur von um að það sé aðeins tímaspursmál hvenær þessi grimma refsing verði úr sögunni,“ segir Kumi Naidoo, aðal­fram­kvæmda­stjóri Amnesty Internati­onal.

Fækkun á aftökum árið 2018

Aftökum í Íran fækkaði um helming en aftökur þar í landi eru algengar. Fækk­unin kemur í kjöl­farið á breyt­ingum á löggjöf um vímu­efni. Í Írak, Pakistan og Sómalíu fækkaði aftökum einnig tölu­vert. Fækk­unin leiddi til þess að fjöldi aftaka á alþjóða­vísu fækkaði úr í það minnsta 993 árið 2017 í 690 árið 2018.

„Ég fékk áfall þegar dómarinn sagði mér að ég hefði verið dæmd til dauða. Ég hafði ekki gert neitt til að eiga það skilið að deyja. Ég trúði ekki þessu mikla órétt­læti, sérstak­lega gegn konum. Ég hafði aldrei hugleitt hvernig það væri að vera tekin af lífi fyrr en þarna. Það fyrsta sem kom upp í huga minn var: Hvernig ætli fólki líði við aftöku? Hvað gerir það? Mál mitt var sérstak­lega erfitt þar sem fjöl­skylda mín hafði afneitað mér þegar dómur féll. Ég þurfti að takast á við áfallið ein.“

Noura Hussein, ung súdönsk kona,sem var dæmd til dauða í maí 2018 fyrir að drepa manninn sem hún var þvinguð til að giftast og reyndi að nauðga henni.
Dauða­dómur hennar var mild­aður í fimm ára fang­elsis­vist eftir alþjóð­lega herferð Amnesty Internati­onal.

Nokkur ríki spilla jákvæðri þróun

Ekki eru þó einungis jákvæðar fréttir sem berast úr þessum mála­flokki. Amnesty Internati­onal greindi aukn­ingu á aftökum í Hvíta-Rússlandi, Japan, Singapúr, Suður-Súdan og Banda­ríkj­unum á síðasta ári. Taíland hóf aftökur að nýju í fyrsta sinn frá árinu 2009 og forseti Sri Lanka, Mait­hripala Sirisena, tilkynnti að aftökur yrðu teknar upp í landinu á ný eftir 40 ára hlé og auglýsti eftir böðlum í febrúar 2019. Botsvana, Súdan og Taivan hófu einnig aftökur að nýju árið 2018.

„Örfá ríki hafa spillt þeirri jákvæðu þróun sem átti sér stað árið 2018 og fara, skamm­ar­lega, gegn straumnum. Fjöldi aftaka í Japan, Singapúr og Suður-Súdan var sá hæsti miðað við undan­farin ár og Taíland hóf aftökur á ný eftir næstum áratuga aftökuhlé. Þessum löndum fer þó fækk­andi. Ég skora á öll lönd sem enn beita dauðarefs­ing­unni að vera frökk og stöðva þessa andstyggi­legu refs­ingu strax,“ segir Kumi Naidoo

Flestar aftökur í Kína

Enn á ný fóru flestar aftökur fram í Kína en ekki eru til nákvæmar tölur um fjöldann þar sem upplýs­ing­arnar teljast til ríkis­leynd­ar­mála. Amnesty Internati­onal telur að þúsundir fanga séu dæmdir og teknir af lífi þar á hverju ári.

Árið 2018 voru a.m.k. 454 fangar teknir af lífi í Íran, Írak og Sádi-Arabíu. Íran fram­kvæmdi 253 aftökur, þriðjung allra aftaka sem skráðar voru á alþjóða­vísu, þrátt fyrir tölu­verða fækkun á aftökum þar í landi.

Í Írak fjór­fjöld­uðust dauða­dóm­arnir, úr a.m.k. 65 árið 2017 í a.m.k. 271 árið 2018. Fjölgun dauða­dóma í Egyptalandi var um 75%, úr a.m.k. 402 árið 2017 í a.m.k. 717 árið 2018.  Þessa fjölgun má rekja til þess að egypsk yfir­völd hafa á skelfi­legan hátt fellt dauða­dóma í massavís eftir veru­lega ósann­gjarna máls­með­ferð byggða á „játn­ingum“ sem hafa verið fengið með pynd­ingum og ófull­nægj­andi rann­sókn lögreglu.

Víet­nömsk yfir­völd birtu opin­ber­lega fjölda aftaka fyrir síðasta ár en það hefur aldrei áður gerst. Fjöldi aftaka þar var í það minnsta 85 árið 2018 og er Víetnam því ofar­lega á lista yfir þau lönd sem fram­kvæmdu flestar aftökur.

Hồ Duy Hải var sakfelldur fyrir þjófnað og morð eftir að hafa að hans sögn sætt pynd­ingum til að skrifa undir „játn­ingu“. Hann var dæmdur til dauða árið 2008. Hann situr á dauða­deild í Víetnam þar sem hann er í hættu á að vera tekin af lífi. Það hefur haft skaðleg áhrif á fjöl­skyldu hans vegna áhyggja af dauða­dóm­inum.

Móðir Hồ Duy Hải sagði Amnesty Internati­onal: „Það eru liðin 11 ár frá hand­töku hans og fjöl­skylda okkar er sundruð. Ég  þoli ekki þennan sárs­auka lengur. Það særir mig svo mikið þegar ég hugsa til þess hversu sonur minn þjáist í fang­elsi. Ég myndi vilja að alþjóða­sam­fé­lagið hjálpaði okkur að sameina fjöl­skyldu okkar á ný. Þið eruð eina von mín.“

Á heildina litið er dauðarefs­ingin á undan­haldi og heim­urinn að þokast í átt að afnámi þess­arar grimmu og ómann­úð­legu refs­ingu.

„Hægt og rólega er að nást alþjóðleg sátt um að binda enda á beit­ingu dauðarefs­ing­ar­innar. Amnesty Internati­onal hefur barist fyrir stöðvun aftaka í rúm 40 ár og barátt­unni er langt frá því lokið þar sem rúmlega 19.000 fangar eru enn á dauða­deild um heim allan. Raun­veruleg skref hafa verið tekin til að afnema dauðarefs­inguna, til dæmis í Búrkína Fasó og Banda­ríkj­unum. Nú er það undir öðrum löndum komið að fylgja í fótspor þeirra. Við viljum öll búa í öruggu samfé­lagi en aftökur eru aldrei lausnin. Með áfram­hald­andi stuðn­ingi fólks um allan heim getum við og munum binda enda á dauðarefs­inguna fyrir fullt og allt,“ segir Kumi Naidoo að lokum.

Alþjóðleg þróun í átt að afnámi dauðarefs­ing­ar­innar

Búrkína Fasó innleiddi í júní á síðasta ári ný hegn­ing­arlög þar sem dauðarefs­ingin er afnumin. Í febrúar og júlí tilkynntu Gambía og Malasía opin­ber­lega um aftöku­stopp. Í Washington-fylki í Banda­ríkj­unum var úrskurðað að dauðarefs­ingin samræmdist ekki stjórn­ar­skrá.

Á alls­herj­ar­þingi Sameinuðu þjóð­anna í desember kaus 121 land með alþjóð­legu banni á dauðarefs­ing­unni. Aldrei áður hafa eins mörg lönd staðið með slíku banni. Aðeins 35 lönd greiddu atkvæði gegn því.

Í lok ársins 2018 höfðu 106 lönd afnumið dauðarefs­inguna fyrir alla glæpi og 142 lönd afnumið dauðarefs­inguna í lögum eða í fram­kvæmd.

Hér má lesa skýrsluna:

Lestu einnig