Fréttir

19. apríl 2023

Íran: Börn sem mótmæla sæta hrotta­fengnum pynd­ingum í haldi

Leyni­þjón­usta og örygg­is­sveitir í Íran hafa beitt barn­unga mótmæl­endur, allt niður í 12 ára, hrotta­fengnum pynd­ingum til að hindra þátt­töku þeirra í mótmælum, meðal annars barsmíðum, svipu­höggum, rafstuði, nauðg­unum og öðru kynferð­isof­beldi.

Rann­sókn Amnesty Internati­onal greinir frá ofbeldi gegn börnum í Íran sem voru hand­tekin á mótmælum eða í kjölfar þeirra en rúmlega sex mánuðir eru liðnir frá því að fordæma­laus mótmæla­alda hófst í landinu í kjölfar dauða Möhsu (Zhina) Amini í varð­haldi. Rann­sóknin dregur fram helstu pynd­ing­ar­að­ferðir ýmissa örygg­is­sveita og leyni­þjón­ustu í Íran sem beitt er gegn stúlkum og drengjum í varð­haldi til að refsa þeim og þvinga þau til „játn­ingar“.

Óvægin herferð

Amnesty Internati­onal hefur skrá­sett mál sjö barna af mikilli nákvæmni frá upphafi rann­sóknar á óvæg­inni herferð íranskra stjórn­valda gegn mótmæl­endum. Rann­sóknin er byggð á viðtölum við þolendur og fjöl­skyldur þeirra, auk vitn­is­burðar frá 19 sjón­ar­vottum um víðtæka beit­ingu pynd­inga gegn fjölda annarra barna. Á meðal sjón­ar­votta voru tveir lögfræð­ingar og 17 full­orðnir einstak­lingar sem var haldið föngum ásamt börnum. Viðmæl­endur voru frá ýmsum héruðum, vítt og breitt um Íran, þeirra á meðal Austur-Azer­baíjan, Golestan, Kerm­anshah, Khorasan-e Razavi, Khuzestan, Lorestan, Mazand­aran, Sistan og Baluchestan, Teheran og Zanjan.

„Full­trúar ríkisins hafa rifið börn burt frá fjöl­skyldum sínum og beitt þau hrika­legri hörku. Það er óhugn­an­legt að opin­berir full­trúar skuli beita valdi sínu gegn berskjöld­uðum og ótta­slegnum börnum á glæp­sam­legan hátt, sem veldur alvar­legum líkam­legum og andlegum meinum og fjöl­skyldum þeirra níst­andi sárs­auka og angist. Þetta ofbeldi gegn börnum sýnir þaul­hugsaða stefnu yfir­valda til að bæla niður kraftinn í æsku landsins og koma í veg fyrir að þau krefjist frelsis og mann­rétt­inda.“

Diana Elta­hawy, aðstoð­ar­fram­kvæmda­stjóri Amnesty Internati­onal í Miðaust­ur­löndum og Norður-Afríku.

„Yfir­völd verða tafar­laust að sleppa öllum börnum lausum sem eru í haldi fyrir það eitt að mótmæla frið­sam­lega. Engar horfur eru á að óhlut­dræg rann­sókn á pynd­ingum gegn börnum muni fara fram í Íran. Því skorum við á ríki heims að beita alþjóð­legri lögsögu til að draga full­trúa ríkisins til ábyrgðar að meðtöldum þeim sem hafa skip­un­ar­vald og þá sem grun­aðir eru um að bera ábyrgð á glæpum samkvæmt alþjóða­lögum, eins og pynd­ingum gegn barn­ungum mótmæl­endum.“

Diana Elta­hawy, aðstoð­ar­fram­kvæmda­stjóri Amnesty Internati­onal í Miðaust­ur­löndum og Norður-Afríku.

Amnesty Internati­onal gefur ekki upp neinar upplýs­ingar sem geta auðkennt börnin eins og aldur þeirra og nöfn á þeim héruðum sem þau voru í haldi til að vernda þau og fjöl­skyldur þeirra gegn hefndarað­gerðum.

Fjöldi barna í haldi

Írönsk stjórn­völd hafa viður­kennt að heild­ar­fjöldi einstak­linga sem hafa verið settir í varð­hald í tengslum við mótmælin séu rúmlega 22 þúsund. Stjórn­völd hafa ekki gefið upp hversu mörg börn tilheyra þessum hópi en ríkis­reknir fjöl­miðlar hafa greint frá því að börn skipa stóran hóp á meðal mótmæl­enda. Amnesty Internati­onal áætlar að þúsundir barna séu meðal þeirra sem stjórn­völd hafa hand­tekið, byggt á vitn­is­burði frá tugum einstak­linga í varð­haldi vítt og breitt um Íran ásamt þeirri stað­reynd að ungt fólk og börn hafa leitt mótmælin.

Niður­stöður rann­sóknar Amnesty Internati­onal benda til þess að börn, eins og full­orðnir, hafi fyrst verið færð á varð­halds­stöðvar sem reknar eru af leyni­þjón­ustu og örygg­is­sveitum. Oftast er fólkið fært í varð­hald með bundið fyrir augu. Í kjölfar nokk­urra daga eða vikna varð­haldsvistar án samskipta við umheiminn og jafnvel án vitn­eskju aðstand­enda voru þau loks færð í viður­kennt fang­elsi. Óein­kennisklæddir full­trúar ríkisins námu önnur börn á brott á götum úti á meðan á mótmælum stóð eða í kjölfar þeirra og fóru með þau í vöruhús þar sem þau voru pynduð áður en þau voru skilin eftir á afskekktum stöðum í þeim tilgangi að refsa, ógna og hindra þátt­töku þeirra í mótmælum.

Mörg börn hafa verið í haldi með full­orðnum, sem stríðir gegn alþjóð­legum viðmiðum.  Þau hafa einnig sætt pynd­ingum og illri meðferð. Fyrrum fangi á full­orð­ins­aldri tjáði Amnesty Internati­onal að í einu héraði hafi full­trúar Basij-hersins neytt nokkra drengi í röð með full­orðnum föngum til að standa gleiðir og þeim gefið rafstuð í kynfærin.

Flest börn sem hafa verið hand­tekin síðustu sex mánuði hefur verið sleppt úr haldi, stundum gegn trygg­ingu á meðan rann­sókn stendur yfir eða málinu vísað til dómstóla. Mörgum var aðeins sleppt eftir að þau höfðu skrifað „iðrun­ar­bréf“ og lofað að halda sig frá „póli­tískum aðgerðum“ en látin taka þátt í kröfu­göngum til stuðn­ings stjórn­völdum.

Áður en börn­unum var sleppt úr haldi hótuðu erind­rekar ríkisins oft að sækja þau til saka á grund­velli ákæra sem fela í sér dauðadóm eða að hand­taka ættingja ef þau myndu leggja fram kvörtun.

Í a.m.k. tveimur tilfellum sem Amnesty Internati­onal greindi frá lögðu fjöl­skyldur barna fram opin­bera kvörtun til dóms­mála­yf­ir­valda, þrátt fyrir hótanir um hefndarað­gerðir, en hvorugt málanna var rann­sakað.

Nauðgun og annað kynferðisofbeldi

Rann­sókn Amnesty Internati­onal sýndi einnig fram á að full­trúar á vegum ríkisins beittu nauðg­unum og öðru kynferð­isof­beldi gegn börnum sem vopni til að refsa, niður­lægja og ná fram „játn­ingu“. Má þar nefna rafstuð á kynfæri, káf á kynfærum og hótanir um nauðgun. Fjöl­margir full­orðnir fangar, bæði konur og karl­menn, hafa greint frá þessum aðferðum.

Full­trúar á vegum ríkisins hreyttu einnig kynferð­is­lega vanvirð­andi orðum til stúlkna í haldi og sökuðu þær um að vilja bera sig. Þær höfðu ekkert til saka unnið annað en að nýta sjálf­sagðan rétt sinn til að mótmæla í þágu kvenna og stúlkna og andmæla þeirri laga­legu skyldu að ganga með höfuðslæður.

Móðir tjáði Amnesty Internati­onal að full­trúar ríkisins hafi nauðgað syni sínum með vatns­slöngu þegar hann sætti þvinguðu manns­hvarfi (leyni­legu varð­haldi á vegum yfir­valda). Hún sagði;

„Sonur minn tjáði mér þetta: ég var látinn hanga uppi þar til mér leið eins og hand­legg­irnir mínir væru að rifna af. Ég var neyddur til að segja það sem þeir vildu þar sem að mér var nauðgað með vatns­slöngu. Gripið var í höndina mína og ég neyddur til að setja fingraför mín á pappír.“

Barsmíðar, svipuhögg, rafstuð og önnur ill meðferð

Örygg­is­sveitir börðu börn iðulega við hand­töku, í bifreiðum á milli staða og á varð­haldsmið­stöðvum. Svipu­högg, rafstuð með rafbyssum, þvinguð lyfja­gjöf á óþekktum lyfjum og vatns­pynd­ingar voru á meðal annarra pynd­ing­ar­að­ferða sem voru nefndar.

Í einu tilfelli voru nokkrir skóla­drengir numdir á brott í kjölfar þess að hafa ritað slag­orðið: „Konur, líf, frelsi“ á vegg. Ættingi sagði Amnesty Internati­onal að óein­kennisklæddir menn hafi numið drengina á brott, farið með þá á óþekktan stað, pyndað þá og hótað að nauðga þeim og nokkrum klukku­tímum síðar kastað þeim, hálf meðvit­und­ar­lausum, á afskekktan stað. Einn af þolend­unum sagði eftir­far­andi við umræddan ættingja:

„Okkur var gefið rafstuð, ég var barinn í andlitið með byssu­skafti, mér gefið rafstuð í bakið og ég barinn í fæturna, bakið og hend­urnar með kylfu. Okkur var hótað að ef við segðum frá þá yrðum [við settir aftur í varð­hald], farið enn verr með okkur og fjöl­skyldum okkar afhent líkin okkar.“

Sálfræðilegar pyndingar

Þolendur og fjöl­skyldur þeirra greindu einnig frá því hvernig full­trúar yfir­valda tóku börnin hálstaki, létu þau hanga á höndum eða á trefli sem var bundinn um háls þeirra og þvinguðu þau til að fram­kvæma niður­lægj­andi gjörðir.

Einn drengur sagði eftir­far­andi:

„Okkur var sagt að gefa frá okkur hænsna­hljóð í hálf­tíma, svona lengi til að við myndum „verpa eggjum“. Við vorum þvinguð til að gera armbeygjur í klukku­tíma. Ég var eina barnið þarna. Á annarri varð­haldsmið­stöð voru 30 einstak­lingar saman í klefa sem rúmaði aðeins fimm einstak­linga.“

Full­trúar ríkisins beittu einnig sálfræði­legum pynd­ingum eins og dauða­hót­unum til að refsa eða ógna börn­unum eða til að þvinga þau til „játn­ingar“. Ríkis­fjöl­miðlar hafa sýnt þving­aðar játn­ingar a.m.k. tveggja drengja sem voru hand­teknir á mótmælum.

Móðir stúlku sem var hand­tekin af bylt­ing­ar­vörðum ríkisins sagði Amnesty Internati­onal eftir­far­andi:

Hún var ásökuð um að brenna höfuðslæðu, móðga æðsta leið­toga Íran og að vilja steypa af stóli [Íslamska lýðveldinu Íran], og var sagt að hún yrði dæmd til dauða. Henni var hótað svo hún segði ekki frá…Hún var þvinguð til skrifa undir og setja fingraför sín á skjöl. Hún er með martraðir og fer hvergi. Hún getur ekki einu sinni lesið náms­bækur.

Börnum var einnig haldið við grimmi­legar og ómann­úð­legar aðstæður. Þeim var meðal annars haldið án nægi­legs matar eða drykkjar­hæfs vatns, í miklum þrengslum, með lélegt aðgengi að salernis- og þvotta­að­stöðu, í miklum kulda og langvar­andi einangr­un­ar­vist. Stúlkum var haldið föngum af karl­kyns örygg­is­vörðum án þess að tillit væri tekið til sérstakra þarfa þeirra á grund­velli kyns. Börnum var einnig meinað aðgengi að tilhlýði­legri lækn­is­þjón­ustu m.a. vegna áverka sem þau hlutu í kjölfar pynd­inga.

Lestu nánar um stöðu tján­ing­ar­frelsis í Íran.

Lestu einnig