Góðar fréttir

27. maí 2022

Þitt nafn bjargar lífi: Samviskufangi laus úr haldi í Egyptalandi

Enn berast góðar fréttir í tengslum við herferð okkar Þitt nafn bjargar lífi. Ibrahim Ezz El-Din, mann­rétt­inda­fröm­uður sem var samviskufangi, var leystur úr haldi í Egyptalandi þann 26. apríl eftir að hafa setið 34 mánuði í fang­elsi fyrir mann­rétt­inda­störf sín. Hann var aldrei form­lega ákærður en var í haldi vegna rann­sóknar á því hvort hann „tilheyrði hryðju­verka­hópi“. Í 167 daga var honum haldið í leynd þar sem hann sætti pynd­ingum og fjöl­skylda hans vissi ekki hvar hann var niður­kominn.  

Lausn Ibra­hims kom í kjölfar herferðar Amnesty Internati­onal og var m.a. hluti af okkar árlegu og alþjóð­legu herferð, Þitt nafn bjargar lífi, árið 2019. Þegar herferðin hófst var ekki vitað hvar hann væri í haldi. Ibrahim var á gangi heim­leiðis að kvöldi dags þann 11. júní 2019 þegar fjórir óein­kennisklæddir lögreglu­menn umkringdu hann og hand­tóku. Móðir hans fór á lögreglu­stöð í nágrenninu en þar full­yrti lögregla að Ibrahim væri hvorki á staðnum né í varð­haldi. Nánar um ákallið hér. 

Við viljum endi­lega deila þakk­ar­orðum Ibrahim Ezz El-Din til ykkar sem studdu mál hans. Þar lýsir hann því hversu mikið stuðn­ing­urinn skipti hann máli. 

„Til félaga minna sem verja mann­rétt­indi og réttinn til mann­sæm­andi lífs. Á þessum þremur árum sem ég sat í fang­elsi fann ég fyrir því dag hvern að ég væri að týna hluta af sál minni og missa vonina um að snúa aftur til lífs míns, til frelsis. Það eina sem lýsti upp daga mína og gaf mér von voru þær fréttir sem ég fékk um að fólk mundi enn eftir mér og krafðist frelsis fyrir mig. Á myrk­ustu örvænt­ing­ar­tímum í fang­elsinu voru fréttir af herferð fyrir lausn minni eina hvatn­ingin sem hélt mér gang­andi og gaf mér von.“

„Ég vil þakka öllu fólkinu sem tók þátt í herferð­inni og stóð með mér innan sem utan Egypta­lands. Ég vil sérstak­lega þakka Amnesty Internati­onal, öllu starfs­fólki og stuðn­ings­fólki þess, þið voruð sólar­geisl­arnir í myrkrinu. Þakk­arorð geta ekki lýst þakk­læti mínu til ykkar allra.“

„Við þurfum að halda áfram að fjalla um einstak­linga í haldi því það gefur þeim von um að geta flúið undan því órétt­læti sem á þá er lagt. Þakkir til ykkar allra.“

Lestu einnig