Amnesty International tekur þátt í Reykjavík Pride

Íslandsdeild Amnesty International tekur þátt í gleðigöngu Reykjavík Pride á morgun, laugardaginn 11. ágúst, til að minna á allt það fólk sem hefur ekki frelsi til að elska eða vera það sjálft og á á hættu að gjalda þess dýrum dómi.

10.8.2018

Líkt og áður munum við bæði taka þátt í göngunni sjálfri og standa fyrir undirskriftasöfnun í Hljómskálagarðinum. Að þessu sinni söfnum við undirskriftum fyrir mál Alejöndru, trans konu frá El Salvador, sem flúði heimaland sitt vegna ofsókna og ofbeldis. Alejandra óskaði eftir alþjóðlegri vernd í Bandaríkjunum en hefur verið í haldi í varðhaldsstöðinni Cibola þar í landi síðan í desember. Alejandra hefur þjáðst af hræðilegum höfuðverkjum, uppköstum og blóðnösum í 11 daga í röð en þrátt fyrir að hafa óskað eftir læknisaðstoð þónokkrum sinnum hefur hún ekki fengið viðeigandi aðhlynningu.

Samtök Amnesty International vilja senda bandarískum yfirvöldum skýr skilaboð þess efnis að Alejandra verði leyst strax úr haldi og eigi ekki þessi hræðilegu örlög skilið.

Áhugasamir geta mætt klukkan 14:00 á laugardag á Sæbraut, við hlið Hörpu tónlistarhúss, þar sem gangan hefst. Þeir sem ekki komast þá geta mætt milli klukkan 15:00 og 16:00 í Hljómskálagarðinn og gripið til aðgerða með undirskrift sinni.

Til baka