Bandaríkin: Chelsea Manning loks frjáls eftir grimmilega meðferð

17.5.2017

Amnesty International kallar eftir rannsókn á stríðsglæpum sem voru afhjúpaðir og meiri vernd fyrir uppljóstrara.

Mér virðist sem gagnsæi stjórnvalda sé frumskilyrði þess að tryggja og vernda frelsi og reisn allra einstaklinga.“  - Chelsea Manning 

Síðbúin lausn Chelsea Manning úr herfangelsi í Bandaríkjunum í dag bindur loks enda á refsingu hennar fyrir að opinbera leynilegar upplýsingar, þeirra á meðal mögulega stríðsglæpi Bandaríkjahers.

„Meðferðin á Chelsea Manning er sérstaklega ósvífin í ljósi þess að enginn hefur verið látinn sæta ábyrgð á þeim meintu glæpum sem hún opinberaði. Við fögnum frelsi hennar en höldum einnig áfram að kalla eftir óháðri rannsókn á þeim mögulegu mannréttindabrotum sem hún afhjúpaði og vernd til að tryggja að uppljóstrarar eins og Chelsea Manning þurfi aldrei aftur að sæta jafn skelfilegri meðferð,“ segir Margaret Huang framkvæmdastjóri Amnesty International í Bandaríkjunum.

Amnesty International hefur barist fyrir lausn Manning frá árinu 2013 þegar hún var dæmd til 35 ára fangavistar. Hún hlaut mun lengri dóm en starfsfólk hersins hefur hlotið fyrir morð, nauðgun eða stríðsglæpi. Að auki var Manning í varðhaldi í 11 mánuði án þess að réttað væri yfir henni sem telst, samkvæmt sérstökum eftirlitsfulltrúa Sameinuðu þjóðanna um pyndingar, til grimmilegrar, ómannúðlegrar og niðurlægjandi meðferðar. Manning var sett í einangrun í refsingarskyni fyrir sjálfsvígstilraun og var neitað um viðeigandi meðferð í tengslum við kynvitund hennar á meðan á fangavistinni stóð.

Mál Chelsea Manning var hluti af Bréfamaraþoni Amnesty International árið 2014. Gripið var til nærri 250 þúsund aðgerða vegna Manning þar sem kallað var eftir lausn hennar.

Íslandsdeild samtakanna tók upp mál Manning í Bréfamaraþoninu 2014, í SMS-aðgerðanetinu og Netákallinu en samtals söfnuðust 8.268 undirskriftir Íslendinga vegna máls hennar. Íslandsdeild Amnesty International þakkar öllum þeim sem létu mál hennar sig varða, heilshugar fyrir stuðninginn.

Í bréfi sem Chelsea Manning skrifaði til Amnesty International í kringum Bréfamaraþonið árið 2014 segir, „Ég styð aðgerðir ykkar til verndar fólki hvarvetna sem svipt er réttlæti, frelsi, sannleikanum og reisn sinni. Mér virðist sem gagnsæi stjórnvalda sé frumskilyrði þess að tryggja og vernda frelsi og reisn allra einstaklinga.“

Í kjölfar áralangrar baráttu Amnesty International og annarra ákvað fyrrverandi forseti Bandaríkjanna Barack Obama loks að milda dóminn yfir Manning, áður en hann lét af embætti í janúar 2017.

Amnesty International hleypti nýrri alþjóðlegri herferð úr vör í þessari viku sem ber heitið Brave og beinir athyglinni að hugrökkum aðgerðasinnum og uppljóstrurum um heim allan sem oftar en ekki setja sig í mikla hættu í baráttu sinni gegn mannréttindabrotum.

„Heiftúðug meðferð bandarískra yfirvalda á Chelsea Manning í kjölfar afhjúpunar hennar á mögulegum mannréttindabrotum hersins endurspeglar á sorglegan hátt hversu langt valdhafar ganga til að koma í veg fyrir að aðrir láti í sér heyra,“ segir Margaret Huang.

„Lausn Chelsea Manning sýnir enn einu sinni að samtakamáttur fólksins getur sigrað óréttlætið – skilaboð sem án efa blása mörgum hugrökkum aðgerðasinnum í brjóst enn frekari eldmóð til að verja mannréttindi á heimsvísu.“ 

Til baka