Bandaríkin verða að stöðva aðskilnað og varðhald fjölskyldna

4.7.2018

© Amnesty International 

„Bandarísk yfirvöld verða að stöðva bæði aðskilnað og varðhald barna og fjölskyldna sem koma til Bandaríkjanna á landamærunum við Mexíkó til að sækja um alþjóðlega vernd. Á sama tíma verða þau að sameina þær þúsundir fjölskyldna sem voru aðskildar í kjölfarið á ólöglegri og skaðlegri stefnu ríkisstjórnar Trumps,“ segir Amnesty International.

Þrátt fyrir að Trump Bandaríkjaforseti hafi nýverið skrifað undir tilskipun um að stöðva aðskilnað fjölskyldna þá er þúsundum óttasleginna barna enn haldið frá skelfingu lostnum foreldrum sem hafa enga hugmynd hvort þau muni hittast á ný.

Í tilskipuninni, sem var undirrituð 20. júní, fyrirskipaði Trump Bandaríkjaforseti að börn yrðu fangelsuð með foreldrum sínum í varðhaldi á meðan farið væri yfir umsókn þeirra um alþjóðlega vernd. Skipunin stangast á við bandarísk lög og því hefur ríkisstjórnin leitað leiða til að fá undanþágu frá því að leysa þurfi börn úr haldi án seinkunar eða eigi síðar en eftir 20 daga.

Heimavarnarráðuneyti Bandaríkjanna hefur síðan gefið frá sér yfirlýsingar sem gefa það skýrt til kynna að aðskilnaður fjölskyldna gæti haldið áfram í náinni framtíð. Þó svo að bráðabirgðalögbann sem sett var þann 26. júní af bandarískum alríkisdómstóli og fyrirskipaði sameiningu þúsunda barna og foreldra sem voru aðskilin með valdi sé jákvæð þróun getur ríkisstjórn Trumps þó enn véfengt það.

Þrýstingur frá almenningi skiptir því gríðarlegu máli til að tryggja að fjölskyldur verði ekki sameinaðar til þess eins að setja þær saman í varðhald og til að koma í veg fyrir að fjölskyldur verði aðskildar með valdi á ný.

Stefnan um aðskilnað fjölskyldna var formlega tilkynnt af ríkisstjórn Trumps þann 6. apríl síðastliðinn til þess að fæla fólk í burtu frá því að koma til Bandaríkjanna. Þrátt fyrir það hefur Amnesty International komist að því að þessi aðferð hefur verið notuð a.m.k. frá upphafi þessarar ríkisstjórnar.

Ákall Amnesty International

Amnesty International kallar eftir því að fulltrúaþing Bandaríkjanna þrýsti á heimavarnarráðuneyti Bandaríkjanna til að sameina fjölskyldur sem hafa verið aðskildar sem allra fyrst og binda enda á aðskilnað barna frá foreldrum og forsjáraðilum og koma í veg fyrir að það verði gert að nýju.

Fulltrúaþingið verður einnig að stöðva ríkisstjórnina og enda varðhald fjölskyldna sem hafa sótt um alþjóðlega vernd og leysa án tafar foreldra og börn úr varðhaldi og hafna með öllu auknu fjármagni til varðhaldsmiðstöðva innflytjenda sem er ætluð fyrir börn og fjölskyldur.

 

Rannsókn Amnesty International við landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó

Í rannsókn Amnesty International sem gerð var við landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó í apríl og maí 2018 var meðferð fólks sem sótti um alþjóðlega vernd skráð. Í meirihluta tilvika þar sem fjölskyldur voru aðskildar höfðu þær gefið sig fram á löglegan hátt við landamærin til að sækja um alþjóðlega vernd. Þá höfðu bandarísk yfirvöld enga réttlætingu veitt á aðskilnaðinum.

 

Í einu tilfelli flúði 39 ára brasilísk kona og sjö ára sonur hennar heimaland sitt eftir ítrekaðar morðhótanir frá meðlimum glæpagengis sem hún hafði tilkynnt fyrir fíkniefnasölu fyrir framan hús sitt. Meðlimir glæpagengisins voru í daglegu samstarfi við lögregluna á svæðinu og sögðust myndu drepa hana og son hennar hvert sem þau flýðu innan Brasilíu.

 

Þegar konan talaði við Amnesty International á varðhaldsmiðstöð innflytjenda í Texas sagði hún að starfsmenn landamæraeftirlitsins hefðu aðskilið hana frá syni sínum án ástæðu sama dag og hún óskaði eftir alþjóðlegri vernd á landamærastöð í mars 2018. 

 

„Þeir sögðu við mig: Þú hefur engin réttindi hér og þú hefur engin réttindi til að vera hjá syni þínum,“ sagði hún með tárin í augunum. „Ég dó inn í mér á þessu augnabliki. Það hefði verið betra hefði ég dottið niður dauð. Að vita ekki hvar sonur minn er eða hvað hann er að gera. Þetta er versta tilfinning sem móðir getur fundið fyrir. Hvernig á móðir ekki rétt á að vera með syni sínum?“

 

Margir þeirra foreldra sem aðskildir voru frá börnum sínum sýndu mikla angist, stundum grétu þeir hástöfum við það að segja við Amnesty International sögur sínar.

Niðurstaða rannsóknar Amnesty International út frá þeim málum sem samtökin skráðu var að aðskilnaður fjölskyldna, sem hefur það að markmiði að fæla þá frá og refsa þeim sem sækja um alþjóðlega vernd við landamæri Bandaríkjanna, telst til pyndinga samkvæmt bandarískum og alþjóðlegum lögum.

 Smelltu hér og gríptu til aðgerða í netákalli Amnesty International 

Til baka