Dönsk og þýsk börn gangast undir inngripsskurðaðgerðir til að kyn þeirra verði „staðlað“

12.5.2017

Börn sem fæðast með óhefðbundin kyneinkenni sem falla ekki undir kynjatvíhyggjuna eiga á hættu að sæta ónauðsynlegum og inngripsmiklum læknisaðgerðum sem stuðla oft að sálrænu áfalli og brjóta á mannréttindum þeirra. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Amnesty International sem ber heitið First, Do No Harm. Rannsókn samtakanna byggir á raundæmum frá Danmörku og Þýskalandi sem sýna hvernig úreltar hugmyndir um kyngervi leiða til ónauðsynlegra, óafturkræfra og inngripsmikilla skurðaðgerða á intersex börnum. Hugtakið intersex vísar til meðfæddra frávika á kyneinkennum, þ.e.a.s. líkamlegur munur kann að vera á litningum, kynfærum eða æxlunarfærum.[i]

„Þessar aðgerðir sem ætlaðar eru til að „normalísera“ fólk eru framkvæmdar án fullrar vitundar um þau mögulegu skaðlegu langvarandi áhrif sem þær hafa á börn,“ segir Laura Carter, rannsakandi innan sérfræðiteymis um kynhneigð og kynvitund hjá Amnesty International.

„Skorið er í viðkvæma vefi sem hefur afleiðingar til lífstíðar, allt vegna staðalímynda um hvernig stúlkur eða strákar eiga að líta út. Í hverra þágu er inngripið? Því rannsókn okkar sýnir að þetta er skelfileg lífsreynsla fyrir þá sem fyrir henni verða.“

Skýrslan greinir frá því hvernig ónauðsynlegar læknisaðgerðir, sem að jafnaði eru gerðar á ungabörnum og börnum undir tíu ára, eru framkvæmdar í Danmörku og Þýskalandi, þrátt fyrir skort á læknisfræðilegum rannsóknum sem styðja við þörfina á slíkum skurðaðgerðum. Áætlað er að 1,7% einstaklinga á heimsvísu fæðist með óhefðbundin kyneinkenni sem þýðir að frávikið er jafn algengt og hjá rauðhærðu fólki.

 Viðtöl sem Amnesty International tók við intersex fólk, heilbrigðisstarfsfólk í Danmörku og Þýskalandi, auk stuðningshópa vítt og breitt um Evrópu, sýndu að fólk sem fæddist með óhefðbundin kyneinkenni var sett í meðferðir eins og:

 

  • aðgerðir til að fela stækkaða kirtla í sníp sem leiða til aukinnar  hættu á taugaskemmdum, örmyndun og viðvarandi sársauka
  • skurðaðgerð á leggöngum sem getur þýtt margþættar skurðaðgerðir á ungum börnum yfir tiltekið tímabil til að stækka legopið
  • fjarlæging á kynkirtlum (þeirra á meðal eggjastokkum og eistnavef) – sem er óafturkræfanleg aðgerð og felur í sér þörf á hormónameðferð ævilangt
  • aðgerð til að endurstaðsetja þvagrásina í karlkyns kynfærum sem er gert til að skapa getnaðarlim sem getur gengt hefðbundnu hlutverki sínu og flokkast undir hefðbundin útlitsleg kyneinkenni

 

Þessar læknisfræðilegu meðferðir eru einstaka sinnum nauðsynlegar til að vernda líf eða heilsu barnsins en það er alls ekki alltaf raunin. Margir þeirra einstaklinga sem Amnesty International ræddi við um eigin reynslu eða reynslu barna sinna, töluðu um líkamlegt og sálrænt áfall sem meðferðirnar hefðu leitt til, bæði þegar þær voru framkvæmdar og síðar á lífsleiðinni.

„Þegar ég hugsa um það sem gerðist þá kemst ég í uppnám vegna þess að þetta var ekki fyrir einhvern annan að áveða – þetta mátti bíða,“ segir H frá Danmörku sem ræddi við Amnesty International með þeim skilyrðum að nafnleynd yrði tryggð. Viðmælandi samtakanna uppgötvaði af tilviljun að hann hafði gengist undir óafturkræfanlega aðgerð á kynfærum þegar hann var fimm ára gamall en uppgötvunin varð þegar hann fékk gamlar læknaskýrslur í hendurnar.

„Ég verð mjög leiður þegar ég hugsa um þá staðreynd að talið er nauðsynlegt að gera aðgerð á þessum börnum, aðeins vegna þess að annað fólk telur þörf á slíku.“

SJÁ MYNDBAND

Mannréttindi í húfi

Samkvæmt Amnesty International brýtur núverandi nálgun á meðferðum á intersex börnum í Danmörku og Þýskalandi á mannréttindum þeirra, m.a. réttindum til einkalífs og réttinum á bestu fáanlegu heilbrigðisþjónustu.

Sérfræðingar á vegum Sameinuðu þjóðanna hafa ennfremur gagnrýnt á afdráttalausan hátt umræddar meðferðir. Þeir hafa hvað eftir annað bent á að ónauðsynlegar skurðaðgerðir á intersex börnum eru skaðlegar og brjóta á réttindum barnsins.

„Dönsk og þýsk yfirvöld bregðast þeirri skyldu sinni að vernda þessi börn. Vegna vöntunar á læknisfræðilegum rannsóknum og þekkingu á þessu sviði ætti ekki að taka ákvarðanir sem eru óafturkræfar og hafa áhrif til lífstíðar þegar börn eru of ung til að geta haft áhrif á það sem gert er við þau,“ segir Laura Carter.

Amnesty International skorar á löggjafann og heilbrigðisstarfsfólk í Danmörku og Þýskalandi að tryggja að ekkert barn sæti ónauðsynlegum, inngripsmiklum og óafturkræfum aðgerðum. Að sama skapi ætti að fresta öllum ákvörðunum þar til að einstaklingurinn getur tekið þátt, á merkingarbæran hátt, í ákvörðunum um hvað gert er við líkama hans. Þá er nauðsynlegt að heilbrigðisstarfsfólk hljóti víðtæka fræðslu um kynfjölbreytileika og óhefðbundin kyneinkenni.Yfirvöld verða að hætta að halda í kynbundnar staðalímyndir og Þýskaland og Danmörk verða að tryggja að þeir sem hafa þjáðst vegna ónauðsynlegra, læknisfræðilegra inngripa fái bætur.

Hér má lesa meira um efnið: https://www.amnesty.org/en/latest/campaigns/2017/05/intersex-rights/

 


[i] Sjá nánari skilgreiningu á intersex á heimasíðu intersex samtakanna, https://intersex.samtokin78.is/?p=22

Til baka