Árangur úr Bréf til bjargar lífi

29.11.2017

Bréf til bjargar lífi er stærsti mannréttindaviðburður heims og fer nú fram samtímis í fjölmörgum löndum víða um heim. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa síðustu ár og hefur skipt sköpum í lífi einstaklinga.

Ákærur felldar niður í Perú

Peru-2

Í maí 2017 var felld niður ákæra á hendur Máxima Acuña, bónda sem greip til aðgerða til að mótmæla atferli eins stærsta gullgraftarfyrirtækis í heimi. Yfir 150.000 manns höfðu sent henni stuðningskveðju. Mál Máxima Acuña var tekið fyrir í Bréf til bjargar lífi árið 2016.

„Haldið áfram að veita stuðning og hjálp, ekki bara til mín, lofið þið því?“


Laus af dauðadeild

 

Moses Akatugba, ungur maður frá Nígeríu sem var pyndaður grimmilega og dæmdur til dauða með hengingu aðeins 16 ára gamall fyrir það eitt að stela þremur farsímum. Rúmlega 300.000 manns, í Bréf til bjargar lífi, þrýstu á fylkisstjórann á óseyrum Nígerfljóts að náða Moses og í maí 2015 lét fylkisstjórinn undan. Moses er nú frjáls maður.

Mál Moses Akatugba var tekið fyrir í Bréf til bjargar lífi árið 2014.

„Ég er djúpt snortinn. Ég þakka Amnesty International og aðgerðasinnum samtakanna fyrir stórkostlegan stuðning sem gerði mig að sigurvegara í þessum aðstæðum. Félagar Amnesty International og aðgerðasinnar eru hetjurnar mínar.“


Leyst úr haldi

Yecenia_1511975520597

Yecenia Armenta Graciano frá Mexíkó var leyst úr haldi í júní 2016 en hún sætti grimmilegum pyndingum í fimmtán klukkustundir og nauðgun af hálfu lögreglu í heimalandi sínu. Rúmlega 318 þúsund einstaklingar um heim allan skrifuðu bréf til stjórnvalda í Mexíkó og kröfðust lausnar hennar. Mál Yecenia Armenta Graciano var tekið fyrir í Bréf til bjargar lífi árið 2015.

„Ég þakka ykkur af öllu hjarta. Án ykkar stuðnings hefði þetta ekki verið hægt. Takk fyrir að hætta ekki baráttunni. Stundum tekur langan tíma að ná fram réttlæti en það tekst oft að lokum.“ 


Blaðamaður laus úr haldi í Úsbekistan

Usbekistan-2

Muhammad Bekzhanov, sem setið hefur í fangelsi einna lengst allra blaðamanna í heiminum, var leystur úr haldi í febrúar árið 2017 eftir 17 ára fangavist. Hundruð þúsunda manna um heim allan skrifuðu bréf til að krefjast frelsis honum til handa. Mál Muhammad Bekzhanov var tekið fyrir í Bréf til bjargar lífi árið 2015.

„Þegar ég var í fangelsinu veittu bréfin frá ykkur mér óumræðilega huggun. Þakka ykkur fyrir!“Uppljóstrarinn Chelsea Manning laus úr haldi

Manning

Uppljóstrarinn Chelsea Manning fékk frelsi á ný í maí árið 2017 eftir að 35 ára fangelsisdómur hennar var felldur niður af fráfarandi Bandaríkjaforseta, Barack Obama. Yfir fjórðungur milljónar manna skrifaði til að krefjast lausnar hennar. Mál Chelsea Manning var tekið fyrir í Bréf til bjargar lífi árið 2015.

„Ég vildi óska að ég hefði nægan tíma til að þakka hverjum og einum þeirra sem færðu mér örlitla gleði í hvert sinn sem það kom bréf eða kort.“

 

Hlaut frelsi

Woodfox-2

Albert Woodfox, sem sat í einangrunarvist í rúma fjóra áratugi í Louisiana, var leystur úr haldi þann 19. febrúar 2016.  Rúmlega 240 þúsund einstaklingar sendu honum stuðningskveðju og kröfðust lausnar hans. Mál Albert Woodfox var tekið fyrir í Bréf til bjargar lífi árið 2015.

„Skilaboð ykkar utan veggja fangelsisins reyndust rík uppspretta að innri styrk fyrir mig.“ 

Ákærur felldar niður

Kambodia

Phyoe Phyoe Aung átti yfir höfði sér allt að níu ára fangelsisdóm þegar hún var handtekin árið 2015, ásamt hundrað námsmönnum sem stóðu fyrir friðsamlegum mótmælum gegn nýjum lögum í Mjanmar. Hún hlaut frelsi í apríl 2016. Samtals voru rúmlega 394 þúsund bréf, kort, tölvupóstar og smáskilaboð send henni til stuðnings. Mál Phyoe Phyoe Aung var tekið fyrir í Bréf til bjargar lífi árið 2015.

„Bréf ykkar eru ekki eingöngu bréf. Þau eru risastórar gjafir og mikill styrkur, ekki aðeins fyrir nemendur í Mjanmar heldur fyrir framtíð landsins.“ 


Fyrrum embættismaður laus úr haldi í Úsbekistan

Erkin

Erkin Musaev, fyrrverandi embættismaður öryggismálaráðuneytisins, var dæmdur í 20 ára fangelsi árið 2007 í kjölfar ósanngjarnra réttarhalda. Í ágúst fyrirskipaði forsetinn lausn hans úr fangelsi eftir 11 ár á bak við lás og slá. Mál Erkin Musaev var tekið fyrir í Bréf til bjargar lífi árið 2014 og var einnig hluti af herferð samtakanna, Stöðvum pyndingar.

Ég þakka aðgerðasinnum Amnesty International frá mínum dýpstu hjartarótum, auk þeirra sem studdu mig og fjölskyldu mína á þessum erfiðu tímum. Þetta er sannarlega stór sigur þar sem ykkar framlag skipti sköpum.“


Samviskufangar lausir úr prísundinni

Kongo-3

Samviskufangarnir Fred Bauma og Yves Makwambala, sem börðust fyrir lýðræðisumbótum í Lýðveldinu Kongó, voru leystir úr haldi í ágúst 2016. Þeim hafði verið  haldið föngnum í Makala-fangelsinu í Kinshasa. 

Mál Fred Bauma og Yves Makwambala var tekið fyrir í Bréf til bjargar lífi árið 2015.Til baka