• © Amnesty International (photo: HANS-MAXIMO MUSIELIK)
    Við landamæri Bandaríkjanna                      © Amnesty International (photo: HANS-MAXIMO MUSIELIK)

Bandaríkin: Þriggja ára barn leyst úr haldi

14.8.2017

Það markaði tímamót  þegar úrskurðað var að hinn þriggja ára gamli Josué* skyldi leysa úr haldi úr Berks County Residential Center í Pennsylvaníu í síðustu viku. Hann flúði frá Hondúras með tæplega þrítugri móður sinni vegna hótana um mannrán og líkamlega og kynferðislega árás. Þau sóttu síðan um hæli í Bandaríkjunum og hafa verið í haldi í Berks í rúma 16 mánuði. Josué hefur eytt næstum hálfri ævi sinni í haldi og lærði að tala og ganga í fangavist.

Amnesty International í Bandaríkjunum hóf herferð í júní til að enda varðhald barna og foreldra þeirra í haldi í varðhaldsmiðstöð fyrir fjölskyldur eins og Berks County Residential Center. Um þessar mundir eru fjölmörg börn og foreldrar þeirra í haldi í Berks sem er ein af þremur varðhaldsmiðstöðvum fyrir fjölskyldur í Bandaríkjunum og svipar til fangelsis.  Að minnsta kosti þrjár aðrar fjölskyldur í Berks hafa verið þar í haldi lengur en 600 daga.

„Ákvörðunin um lausnina er fagnaðarefni en aðeins tímabundinn léttir fyrir Josué og móður hans. Við munum halda áfram að tryggja að fólk sem leitar sér hælis fái réttláta málsmeðferð og mannúðlega meðferð,“ sagði Eric Ferrero, aðstoðarframkvæmdastjóri Bandaríkjadeildar Amnesty International. 

„Fjölskyldurnar sem eru í haldi í Berks hafa flúið hrikalegt ofbeldi í heimalandi sínu til þess eins að vera sett bak við lás og slá í Bandaríkjunum. Þessi glórulausa fangelsun stríðir gegn gildum um jafnrétti og virðingu í landinu.  Innflytjenda- og tollgæslan þarf að leysa úr haldi allar fjölskyldur og heimavarnarráðuneyti Bandaríkjanna verður í eitt skipti fyrir öll að loka öllum varðhaldsmiðstöðvum fyrir fjölskyldur eins og Berks.“

Margar af fjölskyldunum í Berks koma frá svæði sem er kallað norður-þríhyrningurinn í Mið-Ameríku, þar sem löndin El Salvador, Gvatemala og Hondúras eru. Þetta svæði er þekkt fyrir gífurlegt ofbeldi og óöryggi eins og Amnesty International hefur ítrekað skjalfest.

 *Ekki hans rétta nafn

 

Til baka