Bandaríkin: Ung móðir sem sótt hafði um hæli er laus úr varðhaldi

8.3.2017

Söru Beltran Hernandez, 26 ára móður sem flúði ofbeldi í El Salvador og var í haldi bandarísku innflytjenda- og tollgæslunnar í 15 mánuði í Texas, hefur verið veitt reynslulausn. Hún var leyst úr haldi að kvöldi 2. mars til að vera með fjölskyldu sinni og leita sér læknismeðferðar vegna heilaæxlis.

Amnesty International hefur barist fyrir lausn hennar og tóku 1,2 milljón Bandaríkjamanna þátt í aðgerð sem fólst í því að hringja í innflytjenda- og tollgæslu Bandaríkjanna og krefjast lausnar Söru. Auk þess höfðu yfir 1000 meðlimir í SMS-aðgerðaneti Íslandsdeildarinnar tekið þátt.

„Sara og fjölskylda hennar eru himinlifandi yfir því að hún geti loksins verið með ættingjum sínum og fengið þá læknismeðferð sem hún þarf á að halda eftir að hafa verið í haldi í meira en 400 daga“ sagði Eric Ferrero hjá bandarísku deild Amnesty International.

„Sara hefði í fyrsta lagi aldrei átt að vera svona lengi í haldi, hvað þá vegna þeirrar læknismeðferðar sem hún þarf á að halda. Það er óforsvaranlegt að koma fram við fólk sem flýr ofbeldi og háska eins og það sé glæpamenn. Að sækja um hæli ætti ekki að jafngilda því að fórna mannréttindum sínum.“

Sara fær að búa hjá fjölskyldu sinni í New York á meðan hælisumsókn hennar er í vinnslu. Samkvæmt bandarískum og alþjóðlegum lögum getur fólk sótt um hæli í Bandaríkjunum ef það óttast um öryggi sitt í heimalandi sínu og vernda verður mannréttindi þeirra á meðan vinnsla hælisumsókna fer fram.       

Til baka