• Taner í faðmi fjölskyldu ©Amnesty International

Bréf til bjargar lífi: Tvær góðar fréttir

24.8.2018

Nýverið bárust gleðifréttir af tveimur málum sem voru tekin upp í hinni árlegu og alþjóðlegri herferð okkar, Bréf til bjargar lífi. Annars vegar vegna máls frá því í fyrra og hins vegar máls frá árinu 2015.

Tyrkland: Formaður Amnesty International leystur úr haldi

Formaður Amnesty International í Tyrklandi var leystur úr haldi 15. ágúst eftir rúmlega 14 mánuði á bak við lás og slá.

„Við erum í skýjunum yfir fréttunum. Það hefur tekið okkur rúmlega ár að berjast fyrir því að Taner sé loks frjáls og í faðmi fjölskyldu sinnar,“ sagði Kumi Naidoo, nýr framkvæmdastjóri Amnesty International eftir að hafa fengið fréttirnar.

„En á bak við brosið og léttinn er einnig sorg, reiði og baráttuhugur. Sorg yfir öllu því sem Taner hefur misst á meðan hann var í fangelsi. Reiði yfir að ákærur hafi ekki verið felldar niður gegn honum og Istanbúl 10-hópnum. Við höldum staðföst áfram að berjast fyrir mannréttindum í Tyrklandi og leysa alla úr haldi sem hafa ranglega verið fangelsaðir í grimmilegri herferð stjórnvalda. Í dag fögnum við en á morgun höldum við baráttunni áfram af fullum krafti líkt og Taner hefur gert. Hann er maður sem þekkir mikilvægi mannréttinda og er tilbúinn að helga líf sitt baráttunni fyrir þeim.

Malasía: Teiknarinn Zunar sýknaður

Í lok júlí sýknuðu malasísk yfirvöld og felldu niður allar ákærur gegn pólitíska teiknaranum Zulkiflee Anwar „Zunar“ Ulhaque, ásamt tveimur öðrum einstaklingum sem sættu svipuðum ákærum.

„Zunar, Sivarasa og Surendran hafa sýnt mikið hugrekki í að beina kastljósinu að óréttlæti, svo sem spillingu og misbeitingu valds. Sýknun þeirra er jákvæð þróun en yfirvöld í Malasíu verða að gera betur til að vernda fólk sem þorir að tala opinskátt“, segir Rachel Chhoa-Howard, rannsakandi Amnesty International í Malasíu.

Amnesty International hefur barist í þrjú ár fyrir því að ákærur gegn Zunar verði felldar niður. Hann var ákærður í apríl 2015 fyrir að hafa svívirt dómskerfið með því að tísta um stjórnarandstöðuleiðtogann og fyrrum samviskufanga Amnesty International, Anwar Ibrahim, sem var fangelsaður fyrir samkynhneigð.

Zunar sætti ákæru í níu liðum samkvæmt löggjöf um uppreisnaráróður (Sedition Act). Amnesty International hefur lengi látið í ljós áhyggjur sínar af þessari löggjöf sem er frá nýlendutímanum og var upphaflega notuð gegn þeim sem kölluðu eftir sjálfstæði Malasíu. Í apríl 2015 var gerð lagabreyting á þinginu og lögin víkkuð út til að ná yfir netmiðla. Það gaf yfirvöldum aukin völd til að handtaka, fangelsa og refsa gagnrýnendum. 

Við þökkum kærlega fyrir stuðninginn!

Til baka