• Teodora del Carmen Vásquez ©Amnesty International

El Salvador: Kona dæmd fyrir morð í kjölfar andvanafæðingar laus úr haldi

19.2.2018

Lausn konu sem var áratug á bak við lás og slá í El Salvador fyrir meðgöngutengd vandkvæði sem leiddi til andvanafæðingar verður að leiða til þess að bundið sé enda á öfgafull lög gegn fóstureyðingum.

Teodora del Carmen Vásquez var leyst úr haldi á fimmtudag eftir að dómstóll stytti fangelsisdóm hennar. Samkvæmt mannréttindasamtökum í landinu eru að minnsta kosti 27 konur enn í haldi vegna algjörs banns gegn fóstureyðingum.

„Það er góðs viti að Teodora sé laus úr fangelsi þó að hún hefði hún aldrei átt að vera þar til að byrja með. El Salvador er enn þá langt frá því að tryggja réttindi kvenna og stúlkna í landinu,“ segir Erika Guevara-Rosas, framkvæmdastjóri Ameríkudeildar Amnesty International.

„Stjórnvöld í El Salvador verða að afnema hið snarasta þetta svívirðilega fóstureyðingarbann sem skapar aðstæður sem leiða til mismununar, sársauka og óréttlætis.“

Í El Salvador eru konur, sem þjást af meðgöngutengdum vandkvæðum er leiða til fósturmissis eða andvanafæðingar, ítrekað grunaðar um fóstureyðingar sem eru bannaðar í öllum tilvikum. Saksóknarar ákæra þær iðulega fyrir manndráp eða jafnvel morð af yfirlögðu ráði en það getur þýtt allt að fimmtíu ára fangelsi.

Teodora fæddi andvana barn árið 2007 eftir að hún fann skyndilega stingandi sársauka við vinnu. Lögreglan handtók hana þar sem hún lá í blóðbaði.  Hún var síðar dæmd í 30 ára fangelsi fyrir morð af yfirlögðu ráði  eftir vankanta á réttarhöldum hennar.

Dómsmálaráðherra El Salvadors mildaði dóm Teodoru en breytti hvorki sakfellingu né viðurkenndi sakleysi hennar. Lögfræðingar hennar ætla sér að hreinsa nafn hennar og sækja skaðabætur fyrir áratug í fangelsi.

Að minnsta kosti 28 aðrar konur eru enn í fangelsi vegna grimmilegra fóstureyðingarlaga. Hátt hlutfall þeirra eru efnalitlar konur með takmarkaðan aðgang að menntun, heilsugæslu og réttarkerfi.  Í skýrslu Amnesty International frá 2014 On the brink of death greindu samtökin að brotið hefði verið á réttinum til sanngjarnra réttarhalda og jafnræðis gagnvart lögum í þeim málum sem hafa verið skráð.

Amnesty International kallar eftir því að hætt verði án tafar að framfylgja fóstureyðingarlögum í samræmi við tillögur nefndar Sameinuðu þjóðanna um afnám misréttis gegn konum (CEDAW) þann 3. mars 2017, með það að markmiði að afglæpavæða fóstureyðingar að fullu, að leysa úr haldi allar þær konur tafarlaust úr haldi og án skilyrða sem hafa verið dæmdar vegna meðgöngutengdra vandkvæða og að auki tryggja örugga og löglega fóstureyðingu í það minnsta þegar líf kvenna, andleg eða líkamleg heilsa er í hættu vegna nauðgunar, sifjaspella eða þegar um er að ræða alvarlega og ólífvænlega fósturgalla.

Mál hennar var tekið fyrir í árlegri herferð Amnesty International,  Bréf til bjargar lífi, árið 2015.

Til baka