• Eskinder Nega ásamt fjölskyldu sinni

Eþíópía: Blaðamaðurinn Eskinder Nega laus úr haldi

7.3.2018

Eskinder Nega, blaðamaður frá Eþíópíu og samviskufangi Amnesty International, var leystur úr haldi í febrúar ásamt 746 öðrum föngum eftir náðun stjórnvalda. Af því tilefni sagði Sarah Jackson, framkvæmdastjóri svæðisdeildar Amnesty International í Austur-Afríku:

„Við erum himinlifandi yfir því að Eskinder Nega gangi loks frjáls eftir næstum sjö ár í fangelsi fyrir falskar ákærur um hryðjuverk. Við vonum að lausn þessa hugrakka blaðamanns, ásamt hundruð annarra fanga, marki ný tímamót hjá eþíópískum stjórnvöldum um hvernig tekið er á pólitískri andstöðu þar sem umburðarlyndi og virðing fyrir mannréttindum verði höfð að leiðarljósi.

Eþíópísk stjórnvöld verða að sýna heilindi og leysa úr haldi hundruð annarra samviskufanga sem enn eru bak við lás og slá fyrir það eitt að nýta sér tjáningarfrelsi sitt.

Geðþóttahandtökur og beiting pyndinga hefur verið leyft að líðast og því verða yfirvöld að taka skref í átt að bættu réttarkerfi. Fyrsta skrefið er að endurskoða grimmileg hryðjuverkalög sem hafa verið notuð til að skerða frelsi mótmælenda á óréttmætan og miskunnarlausan hátt.“

Bakgrunnur

Eskinder var ritstjóri Satanaw dagblaðsins. Hann var handtekinn eftir að hann birti grein um Arabavorið þar sem hann spurði hvort svipuð grasrótarhreyfing fyrir lýðræði gæti orðið að veruleika í Eþíópíu. Hann var ákærður fyrir að styðja hryðjuverkamenn og dæmdur til 18 ára fangelsisvistar. Mál hans var hluti af árlegri herferð Amnesty International, Bréf til bjargar lífi árið 2013.

Til baka