Fillipseyjar: Jerryme Corre laus úr haldi eftir sex ár í fangelsi

19.3.2018

Jerryme Corre er laus úr haldi eftir sex ár í fangelsi og er kominn heim til fjölskyldu sinnar. Mál hans var hluti af alþjóðlegri árlegri herferð Amnesty International, Bréf til bjargar lífi, árið 2014 þar sem hundruð þúsundir um heim allan tóku þátt. Íslendingar létu ekki sitt eftir liggja og þúsundir undirskrifta söfnuðust í máli hans hér á landi. Einnig voru skrifaðar stuðningskveðjur til hans sem gáfu honum styrk og von. Í kjölfarið hófst rannsókn á máli hans árið 2015.

Jerryme Corre sætti hræðilegum pyndingum af hálfu lögreglu í kjölfar ásakana um morð á lögreglumanni. Lögreglumennirnir skeyttu engu um vísbendingar um hafa handtekið rangan mann og ákærðu Jerryme fyrir vörslu eiturlyfja. Árið 2016 var úrskurðað að hann hefði sætt pyndingum af hálfu lögreglu en var þó áfram í haldi. Mál hans var loks fellt niður þann 2. mars síðastliðinn vegna skorts á sönnunargögnum og var hann leystur úr haldi sama dag.

Við lausn úr fangelsinu kom Jerryme Corre á framfæri innilegu þakklæti til Amnesty International fyrir að gefast ekki upp á honum og fyrir að berjast fyrir mannréttindum. Hann stendur þétt við bakið á Amnesty International um að krefja stjórnvöld á Filippseyjum að virða mannréttindi og bæta réttarkerfið.

Til baka