Góðar fréttir: Muhammad Bekzhanov leystur úr haldi eftir 17 ár í fangelsi í Úsbekistan!

24.2.2017

Góðar fréttir: Muhammad Bekzhanov leystur úr haldi eftir 17 ár í fangelsi í Úsbekistan!

Blaðamaðurinn Muhammad Bekzhanov var leystur úr haldi þann 22. febrúar eftir að hafa setið 17 ár í fangelsi. Samstarfsaðilar Amnesty International í Úsbekistan létu vita af þessu.

Íslandsdeild Amnesty International hefur í mörg ár barist fyrir lausn hans, meðal annars í bréfamaraþoni deildarinnar. Sjá má nánar um baráttu okkar hér.

 „Muhammad Bekzhanov hefur þurft að sitja 17 ár í fangelsi. Dóm sinn fékk hann eftir óréttlát réttarhöld og miklar pyndingar. Afplánun hans hefur svo verið framlengd því að stjórnvöld hafa ekki fyrirgefið Bekzhanov fyrir pólitíska baráttu hans. Bekzhanov er einn þeirra blaðamanna í heiminum sem lengst hafa setið í fangelsi,“ sagði Denis Krivosheev, aðstoðarframkvæmdastjóri rannsóknateymis fyrir Evrópu- og Mið-Asíu hjá Amnesty International.

Bekzhanov var handtekinn árið 1999 eftir að hafa verið ásakaður um þátttöku í hryðjuverkum sem framin voru í Tashkent í febrúar það ár. Hann hafði áður mátt þola áreiti stjórnvalda í tengslum við stöðu hans sem ritstjóra blaðsins Erk, sem stjórnvöld höfðu bannað, og fyrir að vera bróðir Muhammad Salih, leiðtoga stjórnarandstöðuflokksins Borgarahreyfing Úsbekistan.

Bekzhanov sætti pyndingum og annarri illri meðferð í varðhaldsvistinni. Hann var laminn með gúmmíkylfum, þrengt að öndunarvegi hans og honum gefið raflost. Hann var þvingaður til að viðurkenna að hafa framið „glæpi gegn ríkinu“. Dómstólar tóku ekkert tillit til þess hvernig „játning“ hans var fengin fram. Hann var dæmdur í 15 ára fangelsi í ágúst 1999.

Dómurinn yfir honum var mildaður um fjögur ár árið 2003 en í desember 2011, einungis þremur mánuðum áður en átti að sleppa honum, var Bekzhanov dæmdur í 5 ára fangelsi til viðbótar, að sögn vegna þess að hann „hlýddi ekki löglegum kröfum fangelsisyfirvalda“.  

Amnesty International fagnar því að Muhammad Bekzhanov hafi verið leystur úr fangelsi en krefst þess að réttlætið nái fram að ganga og að rannskaðar verði ásakanir um pyndingar gegn honum. Þeir sem ábyrgð bera á slíku verða að svara til saka.

Til baka