Ísrael/hernumdu svæði Palestínu: Lausn Ahed Tamimi ljúfsár gleðitíðindi á meðan önnur palestínsk börn eru í haldi í Ísrael

30.7.2018

Hin 17 ára Ahed Tamimi var leyst úr haldi 29. júlí síðastliðinn, 21 degi áður en hún átti að ljúka átta mánaða fangelsisvist sinni eftir að hafa verið ranglega fangelsuð af ísraelska herréttinum á hernumdu svæði Vesturbakkans.

„Það eru gleðitíðindi að Ahed Tamimi, ungur aðgerðasinni sem var fangelsuð fyrir að ýta, slá utan undir og sparka í vel vopnaða og brynjaða hermenn, sé laus úr fangelsi en á sama tíma er það áminning um það að Ísrael er enn að brjóta á mannréttinum palestínskra barna,“ segir Amnesty International.

Móðir hennar Nariman Tamimi, einnig mikill aðgerðasinni, var leyst úr haldi sama dag eftir að hafa verið dæmd í átta mánaða fangelsi fyrir svipaðar sakir.

Faðir Ahed Tamimi, Bassam Tamimi, segir  að þrátt fyrir gleðina að fá  Ahed og Nariman aftur heim hefur hann enn áhyggjur af syni sínum, Wa‘ed 22 ára, sem var handtekinn í maí fyrir mótmæli gegn hernáminu. „Þetta er dagur léttis sem við vonum að muni leiða til hamingju þegar þetta grimmilega hernám verður ekki lengur hluti af okkar lífi.“

Herréttur ákærir Palestínubúa fyrir að brjóta gegn herreglum með friðsamlegum mótmælum eða skipulagningu mótmæla án leyfis ísraelskra heryfirvalda. Samkvæmt mannréttindasamtökum á svæðinu eru enn um 350 palestínsk börn í haldi í ísraelskum fangelsum samkvæmt mannréttindasamtökum á svæðinu. Hundruð palestínskra barna þurfa enn að þola misbeitingu ísraelska refsikerfisins sem hefur að engu réttindi barna og meðferð fanga.

Frelsi Ahed er fagnaðarefni og löngu tímabært en verður samt sem áður að leiða til þess að önnur börn sem eru ranglega fangelsuð af ísraelska hernum verði leyst úr haldi.

Bakgrunnur:

Ahed Tamimi bauð hermönnum birginn á mótmælagöngu í litla þorpinu Nabi Saleh eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti viðurkenndi Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels. Atvikið átti sér stað sama dag og frændi Ahed, Mohammad Tamimi 15 ára, slasaðist alvarlega eftir að hafa verið skotinn í höfuðið með gúmmíkúlu af stuttu færi af ísraelskum hermanni.

Nabi Saleh er á Vesturbakkanum og frá því árið 2009 hafa þar verið regluleg mótmæli á föstudögum gegn hernámi Ísraels, landráni og heftum aðgangi að vatnsbóli. Ísraelsher hefur ítrekað notað óhóflega valdbeitingu gegn mótmælendum og sjónarvottum. Þrír íbúar á svæðinu hafa verið drepnir af ísraelskum hermönnum frá árinu 2009 og fjöldi fólks hefur særst af völdum skotfæra og táragass. 

 

Mál hennar tekið upp í Netákalli Amnesty International í janúar á þessu ári. Við þökkum kærlega fyrir stuðninginn!

Til baka