• Mohamed Faisal Abu Sakha © Palestinian Circus School

Ísrael: Palestínskur sirkuslistamaður leystur úr haldi

12.10.2017

Palestínskur sirkulistamaður og kennari, Mohamed Faisal Abu Sakha, var sleppt lausum úr Ketziot-fangelsinu í Ísrael þann 30. ágúst. Hann sat nærri tvö ár í varðhaldi án dómsúrskurðar og var aldrei ákærður eða réttað yfir honum. Hann er kominn heim til fjölskyldu sinnar í Jenin á Vesturbakkanum.

Mohamed Faisal Abu Sakha var handtekinn af ísraelskum hermönnum þann 14. desember 2015 á Vesturbakkanum við eftirlitsstöð á leið til vinnu hjá Palestínska sirkusskólanum. Hann hlaut sex mánaða varðhald án dómsúrskurðar þann 25. desember sem var síðan tvívegis endurnýjað. Þá hlaut hann þriggja mánaða varðhald án dómsúrskurðar þann 12. júní á þessu ári sem var síðan stytt við áfrýjun.

Saksóknari hélt því fram að Mohamed Faisal Abu Sakha hefði tekið þátt ólöglegu athæfi með PFLP (vinstrisinnaður stjórnmálaflokkur sem er að hluta til vopnaður og bannaður af Ísrael) án þess að sýna fram á nein sönnunargögn máli sínu til stuðnings. Mohamed Faisal Abu Sakha hefur neitað ásökunum. Hann var í haldi í Ísrael en það er svívirðilegt brot gegn Genfarsáttmálanum sem kveður á um að að fangar frá hernumdu svæðunum skuli vera í haldi á sínu svæði.

Mohamed Faisal Abu Sakha ræddi við Amnesty International þann 6. september og sendi eftirfarandi skilaboð til allra sem gripu til aðgerða í hans þágu: „Ég elska ykkur öll. Í ljósi þess hve vel þið studduð mig með aðgerðum ykkar finnst mér ég skynja ykkur öll. Mig langar að þakka hverjum og einum fyrir sig. Ég eyddi heilu dögunum á Facebook án þess að vita hvað ég ætti að skrifa. Engin orð geta lýst því nógu vel.“ Á Facebook-síðu sinni skrifaði hann til allra stuðningsmanna sinna: „Frá hjarta mínu vil ég þakka öllum sem stóðu með mér með orðum, myndum hugmyndum, skilaboðum eða samkennd á meðan ég var í haldi í fangelsi í Ísrael. Kærar þakkir fyrir baráttu ykkar og herferð til að binda enda á varðhald án dómsúrskurðar.“

Mohamed Faisal Abu Sakha sagði í samtali við Amnesty International að hann hlakkaði til að snúa aftur til vinnu sinnar sem kennari í Palestínska sirkusskólanum þar sem hann sérhæfir sig í að kenna börnum með námserfiðleika. Hann sagði að kennslan myndi færa hann aftur inn í sitt daglega líf. „Sirkusskólinn er staður þar sem við tengjumst okkar innri mannúð, sagði hann við Amnesty. „Palestínski sirkusskólinn, sem ég er hluti af, er mikilvægur þáttur í að byggja upp von hjá börnunum fyrir framtíðinni og frelsi,“ bætti hann við á Facebook.

Mál hans var tekið upp í Netákalli Amnesty International í febrúar 2016 þar sem söfnuðust 1728 undirskriftir. 

Til baka