Kína: Liu Xia farin úr landi eftir stofufangelsi

12.7.2018

Listakonan Liu Xia, ekkja nóbelsverðlaunahafans Liu Xiaobo, sem var haldið í ólöglegu stofufangelsi í Kína er nú laus úr haldi og farin úr landi til Þýskalands.

„Það eru dásamlegar fréttir að Liu Xia sé loksins frjáls á ný og að ofsóknir gegn henni og ólöglegt varðhald af hálfu kínverskra yfirvalda er nú loks lokið, næstum ári eftir ótímabært og vansæmandi fráfall Liu Xiaobo,“ segir Patrick Poon, rannsakandi Amnesty International í Kína.

 „Liu Xia gaf aldrei neitt eftir fyrir eiginmann sinn sem var fangelsaður á óréttmætan hátt og var henni refsað grimmilega fyrir það. Kínversk yfirvöld reyndu að þagga niður í henni en hún stóð ávallt fast á sínu í þágu mannréttinda. Eftir 8 ár í ólöglegu stofufangelsi er samt ástæða til að hafa áhyggjur af heilsu hennar.“

„Það verður að hætta allri áreitni í garð fjölskyldu Liu Xia sem er enn í Kína. Það væri grimmilegt af kínverskum yfirvöldum að nota ættingja Liu Xia í þeim tilgangi að beita hana þrýstingi og koma í veg fyrir að hún tjái sig opinskátt í framtíðinni.“

Bakgrunnur

Liu Xia var haldið í stofufangelsi eftir að Liu Xiaobo fékk friðarverðlaun Nóbels árið 2010. Yfirvöld fylgdust grannt með Liu Xia og fengu einungis nánustu vinir hennar að hafa símasamband við hana, með takmörkuðum hætti. 

Liu Xia sagði í apríl síðastliðnum að hún væri tilbúin að deyja í stofufangelsi í samtali við vin sinn Liao Yiwu sem er rithöfundur í útlegð. Átákanleg upptaka af samtalinu var gefin út 2. maí síðastliðinn.


Íslandsdeild Amnesty International tók upp mál hennar síðasta sumar í SMS-aðgerðaneti.

Við þökkum kærlega fyrir allan stuðninginn!

Til baka