Norður-Kórea: Ung kona og fjögurra ára sonur ekki lengur í hættu á að verða send í fangabúðir

23.3.2018

Koo Jeong-hwa sat í fangelsi í Norður-Kóreu frá 3. desember 2017 fyrir að fara úr landi án leyfis. Hún átti á hættu að hljóta lífstíðardóm í pólitískum fangabúðum í Norður-Kóreu ásamt fjögurra ára syni sínum. Fjölskylda Koo Jeong-hwa hefur nú tilkynnt að þau séu ekki lengur í hættu.

Koo Jeong-hwa fór frá Norður-Kóreu með syni sínum og átta öðrum Norður-Kóreubúum í október 2017 en hópurinn var handtekinn mánuði síðar í Kína. Koo Jeong-hwa var vísað aftur til Norður-Kóreu og hún sett í varðhald. Fjögurra ára sonur Koo Jeong-hwa var með henni í haldi fyrstu 20 dagana en var þá sendur til ömmu sinnar.

Amnesty International var í samskiptum við eiginmann Koo Jeong-hwa sem býr í Suður-Kóreu. Hann þakkaði öllum þeim sem studdu Amnesty International með því að grípa til aðgerða fyrir hönd fjölskyldu sinnar og taldi að það hefði hjálpað.

Málið var í netákalli Íslandsdeildar Amnesty International í febrúar þar sem söfnuðust 2228 undirskriftir.

Kærar þakkir fyrir stuðninginn. Undirskrift þín skiptir máli!

Skráðu þig í Netákallið og hafðu áhrif á fleiri líf.


Til baka