Góðar fréttir: Rússland færist nær afnámi dauðarefsingarinnar

8.12.2009

 

Afnemum dauðarefsinguna

 

Amnesty International fagnar ákvörðun stjórnarskrárdómstóls Rússlands sem færir Rússland skrefi nær afnámi dauðarefsingarinnar.

Dómstóllinn ákvað nýlega að framlengja núverandi aftökuhlé, sem átti að renna út í janúar, og lagði til að dauðarefsingin yrði afnumin með öllu.

Aftökuhlé hefur verið í gildi í landinu frá 1999. Amnesty International hefur hvatt rússnesk stjórnvöld til að afnema dauðarefsinguna í lögum og staðfesta viðauka nr. 6 við  Mannréttindasáttmála Evrópu.

Rússland hefur lengi stutt afnám dauðarefsingarinnar á alþjóðavettvangi og löngu er kominn tími til að landið stígi síðasta skrefið og afnemi dauðarefsinguna í lögum.

Þegar Rússland gekk í Evrópuráðið árið 1996 lofuðu stjórnvöld í landinu að afnema dauðarefsinguna fyrir 1999. Hætt var að dæma fólk til dauða í Rússlandi árið 1998 og stjórnarskrárdómstóll landsins fyrirskipaði aftökuhlé árið 1999.Til baka