Bandaríkin: Dómur yfir Chelsea Manning mildaður

19.1.2017

Barack Obama Bandaríkjaforseti lét það verða eitt sitt síðasta embættisverk að milda dóm yfir Chelsea Manning.

Chelsea Manning var dæmd í 35 ára hámarksöryggisfangelsi eftir að hafa lekið út leynilegum gögnum frá Bandaríkjastjórn á vefsíðunni Wikileaks, þar á meðal efni sem afhjúpaði möguleg mannréttindabrot bandarískra hersveita á erlendri grundu. Hún verður leyst úr haldi þann 17. maí næstkomandi.

„Chelsea Manning afhjúpaði alvarleg mannréttindabrot og fyrir vikið brutu bandarísk stjórnvöld gegn mannréttindum hennar í árafjöld,“ segir Margaret Huang, framkvæmdastjóri bandarísku deildar Amnesty International. „Obama Bandaríkjaforseti breytti rétt með ákvörðun sinni um að milda dóminn yfir henni en það var löngu tímabært. Það er óforsvaranlegt að hún hafi þurft að veslast upp í fangelsi á meðan þeir sem varpað var grunur á í upplýsingum sem Manning afhjúpaði hafa enn ekki þurft að svara til saka.“

„Í stað þess að refsa sendiboðanum geta bandarísk stjórnvöld sent umheiminum sterk skilaboð þess efnis að þau ætli sér að rannsaka þau mannréttindabrot sem afhjúpuð voru í lekanum og halda sanngjörn réttarhöld yfir öllum þeim sem liggja undir grun,“ segir Erika Guevara-Rosas, framkvæmdastjóri Ameríkudeildar hjá alþjóðaskrifstofu Amnesty International.

Chelsea Manning fékk ekki að leggja fram sönnunargögn fyrir rétti sem renna stoðum undir að gjörðir hennar hafi verið í almannþágu. Hún var þrjú ár í haldi á meðan hún beið réttarhalda, þar af ellefu mánuði við aðstæður sem sérfræðingur um pyndingar á vegum Sameinuðu þjóðanna, lýsti sem „grimmilegum og ómannúðlegum“. Meðal þess var einangrun í 23 tíma á dag í litlum, gluggalausum klefa utanhúss. Þá var hún einnig sett í einangrun í kjölfar sjálfsvígstilraunar á meðan hún afplánaði dóminn. Að auki hefur Manning verið neitað um mikilvæga og viðeigandi meðferð í kynleiðréttingarferli sínu í fangelsisvist sinni.

Amnesty International hefur barist fyrir Chelsea Manning í nokkur ár: https://www.amnesty.org/en/latest/news/2014/07/usa-one-year-after-her-conviction-chelsea-manning-must-be-released/.

Amnesty International skorar ennfremur á Barack Obama Bandaríkjaforseta að nota framkvæmdavald sitt til að náða Edward Snowden á síðustu dögum forsetans í embætti.

 

Til baka