• © Amnistía Internacional Argentina

Hæstiréttur í Tucuman í Argentínu hefur sýknað Belén

10.4.2017

Þann 27. mars síðastliðinn sýknaði hæstiréttur í Tucuman-héraði í norðurhluta Argentínu Belén, 27 ára gamla konu sem hafði verið dæmd í átta ára fangelsi fyrir fósturmissi á ríkisreknu sjúkrahúsi.

Þann 21. mars 2014 fór Belén á ríkisrekna sjúkrahúsið Avellaneda í San Miguel í Tucuman-héraði vegna kviðverkja. Vegna mikilla blæðinga var henni vísað til kvensjúkdómalæknis. Læknirinn sagði henni að hún væri gengin 22 vikur og væri að missa fóstur. Belén sagðist ekki vita af óléttunni.

Starfsfólk sjúkrahússins fann síðar fóstur inni á baðherbergi og tilkynnti Belén til lögreglunnar. Starfsfólkið fullyrti að um „son“ Belén væri að ræða án nokkurra sannana eða DNA prófana sem sýndu fram á að fóstrið væri hennar. Þegar hún vaknaði eftir aðgerð í rúmi sínu var hún umkringd lögreglumönnum og látin gangast undir skoðun á kynfærum, sem samsvarar grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð. 

Samkvæmt alþjóðlegum lögum og stöðlum er upplýsingagjöf á persónulegum og læknisfræðilegum upplýsingum, þar á meðal til lögreglu, brot á friðhelgi einkalífs. Heilbrigðisstarfsfólki ber skylda til að vernda trúnað þeirra upplýsinga sem þeir hafa aðgang að í starfi sínu.

Belén var sökuð um að hafa komið fósturlátinu sjálf af stað og sætti varðhaldi í tvö ár fram að réttarhöldum fyrir ákæru um fóstureyðingu. Þann 19. apríl 2016 dæmdi refsiréttur í Tucuman Belén í átta ára fangelsi fyrir morð. 

Eftir áfrýjunarferli hjá hæstarétti og mikla baráttu Amnesty International og annarra var einróma niðurstaða hæstaréttar í Tucuman-héraði að sýkna Belén á þeim grundvelli að dómurinn, sem hafði verið áfrýjað, hafi verið kveðinn upp af geðþótta og að ónógar sannanir séu fyrir sekt Belén. 

Til baka