Íran: Fangi undir lögaldri á dauðadeild leystur úr haldi

22.5.2017

Amnesty International hefur fengið góðar fréttir frá Íran! Salar Shadizadi, sem handtekinn var undir lögaldri og var á dauðadeild í 10 ár, hefur verið leystur úr haldi. Amnesty International hefur barist fyrir máli hans síðan í  júlí 2015.

Salar Shadizad hefur beðið aftöku í áratug vegna morðs sem átti sér stað þegar hann var fimmtán ára. Shadizadi sagði að hann hefði verið pyndaður og sætt illri meðferð. Bæði við handtöku og við rannsókn málsins. Þá hafði hann ekki aðgang að lögfræðingi fyrr en mál hans fór fyrir dómstóla í Íran. Í desember 2007 var hann dæmdur til dauða af sakadómi í Gilan-héraði fyrir að stinga æskuvin sinn til bana. Hæstiréttur staðfesti dóminn . Mál Shadizadi var síðan tekið upp að nýju í byrjun ársins 2016 eftir alþjóðleg mótmæli. Hann var dæmdur til dauða á ný í nóvember 2016.

Í kjölfar langra og strangra herferða í forystu Amnesty International, voru allar yfirvofandi aftökur hans stöðvaðar, oft á síðustu stundu. Í febrúar 2017 samþykkti fjölskylda hins látna að Salar Shadizadi yrði veitt náðun gegn bótum. Hann var leystur úr haldi 25. apríl úr Rasht-fangelsinu í Gilan-héraðinu í norðurhluta Íran eftir að hafa verið í tíu ár í fangelsi. 

Til baka