• ©Amnesty International

Taívan færist nær jafnrétti til hjónabands eftir tímamóta dómsúrskurð

30.5.2017

Taívan gæti orðið fyrst til að lögleiða hjónabönd samkynhneigðra í Asíu eftir tímamóta dómsúrskurð þar í landi. Dómarar við stjórnlagadómstól í Taívan úrskurðuðu í síðustu viku að núverandi lög um hjónaband brjóti gegn stjórnarskránni vegna mismununar gegn samkynhneigðum pörum. Dómarar gáfu löggjafanum tvö ár til að gera úrbætur eða innleiða viðeigandi lög.

„Dómarar hafa samþykkt jafnrétti til hjónabands. Þetta er gífurlega stórt skref fram á við fyrir réttindi hinsegin fólks í Taívan og mun hafa áhrif um alla Asíu,“ sagði Lisa Tassi, framkvæmdastjóri herferða í austur-Asíu hjá Amnesty International. „Löggjafinn verður að bregðast skjótt við til að tryggja að Taívan verði fyrsta landið í Asíu til að koma á raunverulegu jafnrétti til hjónabands.“

Drög að frumvarpi um hjónabönd samkynhneigðra er til skoðunar hjá löggjafarþingi Taívans. Amnesty International kallar eftir því að hjónabönd samkynhneigðra verði lögleidd á sama grundvelli og með sömu réttindum og hjónabönd gagnkynhneigðra.

„Úrskurðurinn er skýr. Allir eiga að njóta sömu mannréttinda og jafnrar lagaverndar óháð því hverja þeir elska,“ sagði Lisa Tassi.

Í apríl sendu aðgerðasinnar Amnesty International, frá meir en 40 löndum, skilaboð til Taívans um að samþykkja jafnrétti til hjónabands.

Stuðningsaðilar Amnesty International um heim allan munu halda áfram að þrýsta á stjórnvöld í Taívan að styðja jafnan rétt.

Til baka