• Fjölskylda Shrahul að mótmæla dauðarefsingu ©Amnesty International Malasía

Malasía: Mildun á dauðadómi

8.6.2017

Shahrul Izani Suparman, sem dæmdur var til dauða árið 2009 fyrir fíkniefnaviðskipti, hefur formlega fengið mildaðan dóm.

Shahrul fannst með kannabis í fórum sínum árið 2003 þegar hann var 19 ára. Eftir að hafa eytt rúmlega sex árum í varðhaldi þar sem hann beið réttarhalda var Shahrul dæmdur fyrir fíkniefnaviðskipti og fékk lögbundinn dauðadóm í Shah Alam hæstarétti þann 28. desember 2009. Áður en hann fór í einangrunarklefa líkt og aðrir dauðafangar fór Shahrul í gegnum endurmenntun og notaði síðar það sem hann lærði til að kenna öðrum samföngum sínum.

Amnesty International í Malasíu hefur kallað eftir mildun dóms Shahruls síðustu fjögur ár og var mál hans valið sem eitt af alþjóðlegu málum Amnesty International á alþjóðadegi gegn dauðarefsingu árið 2015.

„Á síðasta ári söfnuðust 10.505 undirskriftir og afmæliskveðjur frá stuðningsfólki Amnesty International sem vakti athygli fylkisstjórans í Selangor og Soldáninn,“ sagði Shamini Darshni Kaliemuthu, framkvæmdastjóri Amnesty International.„Ég fékk þær upplýsingar að lykilástæðan fyrir því að dómur Shahruls var mildaður var vegna ykkar: Soldáninn var upplýstur um að Amnesty International á alþjóðavísu hefði tekið upp málið sem varð til þess að saga Shahrul fékk athygli á heimsvísu. 

“Fjölskylda hans hefur beðið mig um að koma á framfæri þeirra dýpstu þökkum til Amnesty International og fyrir allar aðgerðirnar sem leiddu til þessarar jákvæðu niðurstöðu.“

Eftir margra ára einangrunarvist er Shahrul aftur á meðal annarra fanga og er lausn hans úr fangelsi áætluð árið 2030. Soldáninn í Selangor-fylkinu hefur beðið hann um að sækja á ný um mildun dóms eftir fjögur ár því þá eigi hann möguleika að verða leystur fyrr úr haldi fyrir góða hegðun.

Endurskoðun á lögbundinni dauðarefsingu fyrir fíkniefnabrot

Í mars tóku malasísk stjórnvöld ákvörðun um endurskoðun á lögbundinni dauðarefsingu fyrir fíkniefnabrot og leyfa þess í stað dómara að ákveða dóma fyrir fíkniefnaviðskipti.  Þetta er jákvætt skref sem gæti þýtt verulega fækkun á notkun dauðarefsingar í Malasíu en verður einnig að vera fyrsta skrefið í átt að víðtækari umbótum.

Tölur í mars 2017 gefa til kynna að 799 manns séu á dauðadeild vegna lögbundinnar dauðarefsingar fyrir fíkniefnaviðskipti, þar á meðal 416 erlendir ríkisborgarar. Í Malasíu er dauðarefsingin lögbundin fyrir 12 brotategundir, þar á meðal eru morð, fíkniefnaviðskipti, hryðjuverkatengd brot sem valda dauða og sum brot er varða skotvopn. Meirihluti dauðadóma eru fyrir morð og fíkniefnaviðskipti.

Amnesty International er á móti dauðarefsingunni í öllum tilvikum án undantekinga, óháð ástæðum og aðstæðum glæps, sekt eða sakleysi eða aðferð ríkis við aftöku.

Til baka