• Mexiko

Mexíkó: Ný lög gegn pyndingum gefa von um réttlæti

21.6.2017

Ný löggjöf í Mexíkó gegn pyndingum er kærkomið framfaraskref í baráttunni fyrir mannréttindum í landinu. Yfirvöld verða þó að tryggja að þeir sem ábyrgir eru fyrir pyndingum verði sóttir til saka.

Mexíkóska þingið samþykkti loksins löggjöf gegn pyndingum sem forseti landsins hafði lofað fyrir rúmum tveimur eftir mótmæli á landsvísu vegna grófra mannréttindabrota í máli 43 horfinna nemenda. Öldungadeild Mexíkó samþykkti í apríl lokaútgáfu löggjafarinnar eftir umræður í báðum deildum þingsins.

„Ef mexíkósk yfirvöld vinna ekki að því að tryggja að allir þeir sem eru ábyrgir í þeim þúsundum pyndingarmála sem eru tilkynnt á ári hverju víðsvegar um landið séu dregnir fyrir dóm þá verða þessi lög ekkert annað en orð á blaði. Það má ekki leyfa að svo verði,“ segir Tania Reneaum, framkvæmdastjóri Amnesty International í Mexíkó.

Pyndingar eru algengar í Mexíkó. Fólk er ítrekað pyndað í tilraun til að neyða fólk til að skrifa undir falskar „játningar“. Lögregla, saksóknari og dómsvaldið í Mexíkó hafa enn og aftur brugðist skyldum sínum til að rannsaka, ákæra og refsa fyrir pyndingar af hálfu opinberra starfsmanna. Af þeim þúsundum pyndingarmála sem kærð eru á hverju ári hafa aðeins 15 mál endað með sakfellingu frá árinu 1991. Ákærur á hendur þeirra sem grunaðir eru um að vera ábyrgir eru sjaldnast lagðar fram.

Löggjöfin sem þingið staðfesti markar algjört bann gegn pyndingum og tryggir að sönnunargögn sem er náð fram með pyndingum skuli ekki gilda fyrir rétti. 

Verónica Razo er ein af þúsundum þolenda pyndinga í Mexíkó. Hún hefur setið næstum sex ár í fangelsi án dóms. Í júní 2011 var henni rænt af lögreglumönnum fyrir utan hús sitt í Mexíkóborg þegar hún var á leið að sækja börn sín úr skóla. Henni var nauðgað og hún pynduð í sólarhring þar til hún skrifaði undir „játningu“. Börnin hennar tvö bíða í von og óvon eftir lausn hennar.

„Mexíkóska þingið staðfesti löggjöf sem endurspeglar þrotlausa baráttu óteljandi mannréttindasamtaka og þolenda pyndinga til að tryggja það að þessum hryllilega glæp, sem undir alþjóðalögum er mannréttindabrot, verði útrýmt,“ segir Tania Reneaum. „Þessi lög geta þó ekki talist áhrifamikil á meðan þolendur eins og Verónica Razo er enn bak við lás og slá. Það er tími til kominn að farið verði eftir lögunum í Mexíkó og að Verónica fái að fara heim til fjölskyldu sinnar.“

„Að auki, getur starf þingsins ekki talist fullunnið fyrr en löggjöf um þvinguð mannshvörf hefur verið samþykkt af þinginu eins og forsetinn lofaði árið 2014,“ segir Tania Reneaum. Um leið og forseti hefur skrifað undir lögin munu þau taka gildi á landsvísu og koma í stað þeirra laga sem nú eru í gilid í landinu um málefnið.


Til baka