• ©Amnesty International

Mongólía: Dauðarefsingin úr sögunni með nýjum lögum

13.7.2017

Amnesty International fagnar nýjum lögum í Mongólíu sem eru stór áfangi í átt að vernd mannréttinda í landinu.  Lögin, sem afnema dauðarefsinguna fyrir alla glæpi, voru innleidd 1. júlí 2016 eftir að mongólíska þingið samþykkti þau 3. desember 2015.

Þetta markar endalok á sjö ára löngu ferli í átt að afnámi dauðarefsingarinnar sem hófst formlega í janúar 2010 þegar forseti landsins, Tsakhiagiin Elbegdorj, mildaði alla dauðadóma og gaf út yfirlýsingu um að stöðva formlega allar aftökur. Tveimur árum síðar var staðfestur alþjóðlegur sáttmáli sem skuldbatt landið til að afnema dauðarefsinguna.

Innihald nýja lagatextans ber einnig merki um framfarir í öðrum mannréttindamálum.Til að mynda er skilgreining á pyndingum að mestu tekin upp úr alþjóðalegum samningi gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Það er miður að Mongólía hafi ekki nýtt tækifærið með nýrri löggjöf til að leggja fram og innleiða leiðir til að fyrirbyggja og refsa fyrir pyndingar, m.a. með því að setja á laggirnar óháð og skilvirkt kerfi til að rannsaka ásakanir um pyndingar. 

 Mongólía og dauðarefsingin

 Síðasta aftakan í Mongólíu fór fram árið 2008 og dauðadómar hafa verið mildaðir frá því aftökur voru formlega stöðvaðar. Tölur um beitingu dauðarefsingar voru samt sem áður flokkaðar sem ríkisleyndarmál.

Í byrjun júlí varð Mongólía 105. landið til að losa sig við þessa grimmilegu, ómannlegu og niðurlægjandi refsingu. Það er áttunda landið sem hefur gert það á síðastliðnum fimm árum ásamt Benín, Kongó, Fídjí, Lettlandi, Madagaskar, Nárú og Súrinam. Á sama tímabili hefur Gínea afnumið dauðarefsininguna fyrir minniháttar glæpi.

 Þróunin í Mongólíu síðasta áratuginn sýnir ekki aðeins fram á alþjóðlega þróun í átt að afnámi dauðarefsingarinnar, heldur einnig hversu mikilvæg pólitísk forysta er fyrir breytingar í átt að mannréttindum. Þrátt fyrir það eru enn lönd í Asíu og á Kyrrhafssvæðinu sem halda áfram að beita aftökum eða íhuga að koma dauðarefsingunni á aftur, í trássi við alþjóðlegar skyldur sínar.

 Amnesty International í Mongólíu hefur barist linnulaust fyrir afnámi dauðarefsingarinnar allt frá því að deildin var fyrst stofnuð í landinu árið 1994.  Amnesty International er á móti dauðarefsingunni í öllum tilvikum án undantekninga. Hún brýtur á réttinum til lífs og er hin endanlega grimmilega, ómannlega og vanvirðandi meðferð eða refsing. Samtökin munu halda áfram að kalla á stjórnvöld í öðrum ríkjum sem enn beita dauðarefsingunni að fylgja fordæmi Mongóliu og afnema dauðarefsinguna án tafar fyrir fullt og allt.  

Til baka