• © Raúl García Pereira

Perú: Yfirvöld binda enda á mál gegn mannréttindafrömuði

8.5.2017

Niðurstaða hæstaréttar Perú markar endalok réttarhalda gegn Máxima Acuña Atalaya, mannréttindafrömuði, sem sökuð var um ólöglegt landnám. Þetta er tímamótaákvörðun fyrir umhverfisverndarsinna í landinu.

Að lokinni tæplega fimm ára langri dómsmeðferð á staðhæfulausum ákærum um ólöglegt landnám, úrskurðaði hæstiréttur Perú að ekkert tilefni væri til áframhaldandi ástæðulausra réttarhalda.

„Komið hefur verið fram við marga umhverfisverndarsinna í Perú eins og glæpamenn og þeir dregnir fyrir dóm í tilhæfulausum refsimálum. Dregið er úr líkamlegum og andlegum styrk þeirra og takmörkuðum úrræðum, auk þess að dregin er upp mynd af þeim sem glæpamönnum opinberlega, allt til þess að hindra þá í löglegu starfi sínu til verndar mannréttindum,“ segir Erika Guevara-Rosas, framkvæmdastjóri Ameríkudeildar Amnesty International.

„Það er grundvallaratriði að yfirvöld geri viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir að dómskerfið sé notað í þeim tilgangi að ógna og áreita mannréttindafrömuði.“

Þann 14. febrúar síðastliðinn heimsótti sendinefnd Amnesty International Máxima Acuña og fjölskyldu hennar til að afhenda henni 150.000 stuðningskveðjur alls staðar að úr heiminum þar sem kallað var eftir því að stjórnvöld í Perú að veiti henni vernd frá hvers konar árásum, áreitni og ógnunum. Þennan sama dag heimsótti dóms-og mannréttindamálaráðherra hana til að staðfesta að varrúðarráðstafanir, sem henni höfðu verið veittar af Mannréttindadómstól Ameríkuríkja, yrðu teknar.

Á árunum 2011 og 2014 tilkynnti Máxima Acuña nokkur tilvik um áreitni, árásir og tilraunir til brottrekstrar af hálfu ríkislögreglunnar í Perú.

Bakgrunnur

Þrátt fyrir skort á sönnunargögnum allt frá því að dómsmálið hófst árið 2011 ákvað ríkissaksóknari að halda áfram rannsókn og fara með málið fyrir dómstóla.

Mannorð Máxima Acuña var flekkað þar sem dregin var upp mynd af henni sem glæpamanni í rógherferð. Á árinu 2015 fram í byrjun ársins 2016 sökuðu fulltrúar Yanacocha námufyrirtækisins hana um ólöglegt landnám, jafnvel þó að enn væri beðið eftir niðurstöðu dómstóla um eignarrétt á landinu.

Mál Máxima Acuña var hluti af Bréfamaraþoni Amnesty International árið 2016.

Til baka