Súdan: Dr. Mudawi leystur úr haldi eftir átta mánaða óréttláta fangavist

3.10.2017

Mannréttindafrömuðurinn Dr. Mudawi Ibrahim Adam hefur verið leystur úr haldi og allar ákærur gegn honum felldar niður.

Sarah Jackson, aðstoðarframkvæmdastjóri rannsóknardeildar Amnesty fyrir Austur-Afríku, sagði í tilefni af því: „Það er mikill léttir að þessum hræðilega kafla sé nú lokið. Samviskufanginn Dr. Mudawi hefur sameinast fjölskyldu sinni á ný og er aftur frjáls maður. Átta mánaða fangavist hans var alvarlegt réttarmorð og lausn hans verður að vera fyrsta skrefið í átt að því að binda enda á refsingar fyrir mannréttindastörf í Súdan. Vægðarlausar atlögur yfirvalda gegn gagnrýni setja alla í hættu sem hafa kjarkinn til að láta í sér heyra. Slíkt verður að hætta.“

Mudawi var leystur úr haldi, ásamt fimm öðrum mannréttindafrömuðum þann 29. ágúst. Hann hafði verið ákærður fyrir að „grafa undan stjórnarskránni“ og „heyja stríð gegn ríkinu“. Þessar ákærur hefðu getað leitt til dauðadóms eða lífstíðarfangelsis en hafa nú verið felldar niður.

Mál hans var hluti af SMS-aðgerðaneti Amnesty International í maí á þessu ári þar sem rúmlega 1100 félagar svöruðu ákalli um lausn hans. 

Til baka