Súdan: Mildun á dauðadómi ungrar konu sem drap eiginmann sinn í sjálfsvörn

29.6.2018

Dómstóll í Súdan mildaði dauðadóm yfir Noura Hussein í fimm ára fangelsi fyrir að drepa eiginmann sinn í sjálfsvörn vegna nauðgunartilraunar.

Noura Hussein var dæmd til dauða þann 10. maí síðastliðinn. Eiginmaður hennar, Adulrahman Mohamed Hammad, lést af sárum sínum eftir hnífstungu á heimili þeirra eftir að hann reyndi að nauðga henni með hjálp frá þremur öðrum mönnum. Mildun á dómi hennar þýðir að hún mun þurfa sitja fimm ár í fangelsi frá handtöku og greiða blóðpeninga (dia) að upphæð 337.500 súdanskra punda sem samsvarar um 900 þúsund íslenskum krónum.

„Mildun á dauðadóminum er fagnaðarefni en verður einnig að leiða til lagalegrar enduskoðunar til að tryggja að Noura Hussein sé síðasta manneskjan til að ganga í gegnum þessa erfiðu reynslu,“ segir Seif Magango, framkvæmdastjóri yfir svæðisskrifstofu Amnesty International í Austur-Afríku.

„Noura Hussein var fórnarlamb grimmilegrar árásar eiginmanns síns og fimm ára fangelsisvist fyrir sjálfsvörn er óhófleg refsing. Súdönsk yfirvöld þurfa einnig að nýta þetta tækifæri til að endurskoða lög um barnabrúðkaup, þvingað hjónaband og naugðun í hjónabandi til að koma í veg fyrir að þolendum sé refsað.“

Bakgrunnur

Noura Hussein flúði til fjölskyldu sinnar eftir að hafa stungið eiginmann sinn til bana þann 3. maí 2017. Faðir hennar færði hana á lögreglustöð og hefur hún verið í haldi síðan.

Noura Hussein var neydd í hjónaband með Abdulrahman Mohamed Hammad aðeins 16 ára gömul. Fyrsti hluti hjónavígslunnar var undirritun samnings milli föður hennar og Abdulrahman. Seinni hluti hennar var í apríl 2017 þegar Noura var neydd til að flytja inn á heimili Abdulrahman eftir að hafa lokið skólagöngu. Þegar hún neitaði að „fullkomna hjónabandið með samræði“ fékk Abdulrahman tvo bræður sína og frænda til að hjálpa sér að nauðga henni.

Við réttarhöld hennar í júlí 2017 lagði dómari fram gögn um úrelt lög sem viðurkenna ekki nauðgun í hjónabandi. Súdönsk lög leyfa börnum eldri en 10 ára að ganga í hjónaband.

Íslandsdeild Amnesty International tók mál hennar upp í netákalli í maí á þessu ári. 

Við þökkum kærlega fyrir allan stuðninginn!

Til baka