Tyrkneskur dómstóll leysir mannréttindafrömuði úr haldi

26.10.2017

 

Dómstóll leysir mannrétindafrömuði úr haldi


Í framhaldi af ákvörðun dómstóls í Tyrklandi um að leysa átta mannréttindafrömuði úr haldi gegn tryggingu lét Salil Shetty framkvæmdastjóri Amnesty International eftirfarandi orð falla:

„Loks í dag getum við fagnað því að vinir okkar og samstarfsfólk geti snúið aftur heim til ástvina sinna og sofið í eigin rúmi í fyrsta sinn í nærri fjóra mánuði. En það skyggir á gleðina að Taner Kiliç formaður Tyrklandsdeildar Amnesty International er enn í haldi en réttarhöld yfir honum fara fram í dag.

Þessar pólitísku ofsóknir eru tilraun til að þagga niður í gagnrýnisröddum í Tyrklandi en hafa einungis undirstrikað mikilvægi mannréttinda í landinu og þeirra sem helga líf sitt til að verja þau.

Í gærkvöldi gáfum við okkur tíma til að fagna um sinn en í dag höldum við baráttunni áfram til að tryggja að Taner, Idil og félagar hennar verði sýknuð og þessar tilhæfulausu ákærur verði látnar niður falla. Við munum ekki hætta þar til fallið verður frá ákærunum og þau eru öll frjáls.“

Íslandsdeild Amnesty International þakkar öllum þeim sem tóku þátt í ákalli samtakanna um lausn þessa hugrakka fólks hjartanlega fyrir stuðninginn. Án ykkar væri starf okkar ekki mögulegt. 

Bakgrunnur

Tíu aðgerðasinnar, þeirra á meðal Idil Eser framkvæmdastjóri Tyrklandsdeildar Amnesty International, voru handteknir þann 5. júlí síðastliðinn en Taner Kilic var handtekinn mánuði fyrr. Þau eru sökuð um „aðild að hryðjuverkasamtökum“.  

Taner Kiliç kemur fyrir rétt í dag í Izmir þar sem ákærur vegna „aðildar hans að Fethullah Gülen hryðjuverkasamtökunum“ verða teknar fyrir.

 

Til baka