Úsbekistan: Erkin Musaev laus úr haldi

21.8.2017

Þann 10. ágúst síðastliðinn var fjölskyldu Erkin Musaev boðið að mæta á skrifstofu ríkissaksóknara Úsbekistan þar sem henni var tilkynnt að forseti landsins hafi fyrirskipað lausn Erkin úr fangelsi eftir 11 ár á bak við lás og slá. Hann er nú sameinaður fjölskyldu sinni á nýjan leik.

Mál Erkin Musaev var tekið fyrir á Bréfamaraþoni Amnesty International árið 2014 og var einnig hluti af herferð samtakanna, Stöðvum pyndingar.

Starfsfólk Íslandsdeildar Amnesty International þakkar öllum þeim sem börðust fyrir lausn Erkin Musaev á Bréfamaraþoni samtakanna árið 2014 fyrir að hafa lagt sitt lóð á vogarskálarnar. Stuðningur ykkar skiptir öllu máli og ber sannarlega árangur!

Erkin Musaev, fyrrverandi embættismaður öryggismálaráðuneytisins, var dæmdur í 20 ára fangelsi árið 2007 í kjölfar ósanngjarnra réttarhalda. Hann var handtekinn árinu áður þegar hann var að vinna fyrir umboðsskrifstofu Sameinuðu þjóðanna og ákærður fyrir njósnir og misferli með fjármuni Sameinuðu þjóðanna. Hann neitaði ásökununum alfarið.

Fjölskyldumeðlimir sögðu Amnesty International að Erkin hefði þurft að þola daglegar barsmíðar, yfirheyrslur að nóttu til og hótanir gegn fjölskyldu sinni áður en hann loks skrifaði undir játningu með þeim skilyrðum að fjölskylda hans yrði látin í friði.

Réttað var þrisvar yfir Erkin og í öllum tilfellum var stuðst við sönnunargögn þar sem öryggissveit Úsbekistan hafði náð fram játningum með pyndingum.

Þrátt fyrir að lögfræðingur Erkins hafi lagt fram nokkrar kvartanir þá hafa yfirvöld ekki enn rannsakað ásakanir um að hann hafi sætt pyndingum í fangelsi.

Erkin Musaev lét eftirfarandi orð falla í kjölfar lausnar hans úr prísundinni:

Ég þakka aðgerðasinnum Amnesty International frá mínum dýpstu hjartarótum, auk þeirra sem studdu mig og fjölskyldu mína á þessum erfiðu tímum. Þetta er sannarlega stór sigur þar sem ykkar framlag skipti sköpum.

Enda þótt yfirvöld hafi neitað að afhenda mér stuðningskveðjur ykkar þá fann ég stöðugt fyrir stuðningi ykkar. Ég vil einnig taka fram að eftir að stuðningskveðjurnar bárust í fangelsið varð breyting á framkomu yfirvalda í minn garð. Ég fann sérstaklega fyrir breytingu á framkomu starfsmanna fangelsisins sem sýndu meiri varkárni í samskiptum, auk þess sem ég fékk auðveldari verk að vinna. Faðir minn tjáði mér að í kjölfar baráttu Amnesty International fyrir mína hönd hafi viðhorf alþjóðasamfélagsins breyst gagnvart máli mínu. Enn og aftur vil ég þakka aðgerðasinnum Amnesty International fyrir baráttu sína í mína þágu. Ég vil einnig bæta því við að þetta er upphafið á sigurgöngunni þar sem baráttan kveikti einnig von og efldi styrk allra þeirra sem hafa hlotið ósanngjarnan dóm í Úsbekistan.

Eins og þið kannski vitið vakti Mannréttindastofnun Sameinuðu þjóðanna og mannréttindafulltrúi sömu stofnunnar Zeid Ra'ad Al-Hussein margoft athygli á máli mínu við ýmis tækifæri. Á fundi sem Zeid Ra'ad Al-Hussein átti með forseta Úsbekistan, Shavkat Mirziyoyev, krafði Zeid forsetann um að mál mitt yrði leyst. Það var eftir þennan fund sem ég var leystur úr haldi.

Ríkissaksóknari Úsbekistan boðaði foreldra mína á sinn fund og tilkynnti þeim við hátíðlega athöfn að forseti landsins hafi fyrirskipað frelsun mína. Ríkissaksóknarinn ræddi ekki við foreldra mína um skilmála lausnarinnar en starfsmenn skrifstofu ríkissaksóknara sögðu að ég mætti ekki yfirgefa landið. Ég gengst nú undir læknisskoðun og meðferð. Því miður eru atvinnumál mín enn óljós. Engin vill ráða mig svo þetta er skrýtin staða því yfirvöld meina mér að yfirgefa landið, ég fæ enga vinnu og það er einnig búið að svipta mig eftirlaunum sem ég hef unnið mér rétt til.

Ég þakka ykkur öllum innilega fyrir allt sem þið hafið gert fyrir mig.“

 

Til baka