• ©Getty Images

Hverjir eru Rohingjar og hvers vegna eru þeir að flýja Mjanmar?

13.9.2017

Síðustu vikur hafa um 150 þúsund Rohingjar flúið til Bangladess eftir ólögmætar og óhóflegar hernaðaraðgerðir til þess að svara árásum vopnaðra hópa Rohingja.

Hér eru útskýringar Amnesty International um hlutskipti Rohingja, ofsóknir af hálfu stjórnvalda og þau víððtæku áhrif sem neyðarástandið hefur á mannúðarmál.

Ofsótt fólk

Rohingjar er minnihlutahópur, aðallega múslimar, sem býr í Rakhine-fylki í vesturhluta Mjanmar við landamæri Bangladess og telja um 1,1 milljón manns.

Stjórnvöld í Mjanmar halda því fram að Rohingjar séu hópur af ólöglegum innflytjendum frá Bangladess þrátt fyrir að það hafi búið í Mjanmar í aldaraðir. Þau neita að viðurkenna þá sem ríkisborgara og í reynd er meirihluti þeirra án ríkisfangs.  

Vegna kerfisbundinna mismununar búa Rohingjar við hörmulegar aðstæður. Í raun er um að ræða aðskilnað frá öðrum íbúum, ferðafrelsi þeirra er skert og aðgangur að heilsugæslu, menntun og atvinnu er takmarkaður.

Árið 2012 brutust út óeirðir í kjölfar spennu á milli Rohingja og meirihlutans í Rakhine-fylki, sem eru flestir búddistar. Tugir þúsunda þurftu að yfirgefa heimili sín og fara í niðurníddar búðir, aðallega Rohingjar. Íbúar búðanna eru lokaðir af og aðskildir frá öðrum í samfélaginu.

Frá því október 2016, í kjölfar banvænna árása á lögreglu af hálfu vopnaðra Rohingja í norðurhluta Rakhine-fylkis, hefur herinn í Mjanmar gert skipulagðar árásir á samfélag Rohingja í heild sinni. Amnesty International hefur skráð yfirgripsmikil mannréttindabrot gegn þeim, þar á meðal, morð, geðþóttahandtökur, nauðganir og kynferðislegt ofbeldi gegn konum og stúlkum og bruna á 1200 byggingum, þar á meðal skólum og moskum. Amnesty International ályktaði á sínum tíma að þessar aðgerðir gætu talist glæpir gegn mannkyni.

Ofbeldið að undanförnu

Nýlegasti straumur flóttafólks til Bangladess kemur í kjölfar hernaðaraðgerða Mjanmar vegna árása vopnaðra hópa Rohingja á öryggissveitir þann 25. ágúst.Hernaðaraðgerðirnar eru ólögmætar og óhóflegar þar sem heilt samfélag hefur verið gert að óvini. Frásagnir af svæðinu hafa lýst dauðsföllum óbreyttra borgara ásamt því að heilu þorpin hafa verið brennd til grunna.

Stjórnvöld í Mjanmar hafa sagt að í það minnsta hafi 400 manns látist fram til þessa og lýst þeim flestum sem „hryðjuverkamönnum“. Einnig eru frásagnir um ofbeldi af hálfu vopnaðra hópa gegn óbreyttum borgurum þar á meðal öðrum etnískum og trúarlegum minnihlutahópum.

Hver ber ábyrgð?

Hermaður í Rakhine-fylki ©AFP/Getty Images.

Herinn í Mjanmar ber mestu ábyrgðina á nýjustu grimmdarverkunum. Herinn hefur talsvert sjálfstæði frá borgaralegum stjórnvöldum og heyrir ekki undir borgaralega dómstóla. 

Hershöfðingjar og hermenn bera því alla ábyrgðina á þeim glæpum sem framdir hafa verið í þessu núverandi neyðarástandi.

Herinn hefur áður brotið á mannréttindum Rohingja og annarra minnihlutahópa í Mjanmar. Þrátt fyrir það hefur núverandi leiðtogi Mjanmar, Aung San Suu Kyi, brugðist skyldu sinni til að viðurkenna skelfilegar fréttir um misþyrmingar af hálfu hersins og draga úr spennunni.

Fyrr í mánuðinum komu fram ásakanir frá skrifstofu hennar um að hjálparstarfsfólk í Mjanmar væri að styðja við vopnaða hópa Rohingja sem vekur upp ótta um öryggi þess.Hún hefur einnig brugðist þeirri skyldu sinni að svara ákalli Sameinuðu þjóðanna og leiðtoga heimsins um að grípa inn í og takast á við ástandið í Rakhine-fylki.

Skelfilegt mannúðarástand

Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum hafa um 150 þúsund Rohingja flúið til Bangladess á aðeins tveimur fyrstu vikum neyðarástandsins og fleiri eru á leiðinni. Fólkið sem kemur þangað er sært, svangt og illa leikið og þarfnast brýnnar mannúðaraðstoðar, þar á meðal mat, skjól og læknismeðferð. Það er áríðandi að stjórnvöld í Bangladess fái alþjóðlega aðstoð til að styðja við fólk í neyð.Í Mjanmar eru 27 þúsund manns úr öðrum minnihlutahópum á vergangi í Rakhine-fylki og fá aðstoð frá stjórnvöldum í Mjanmar.

Yfirvöld hafa stöðvað lífsnauðsynlegar vistir frá Sameinuðu þjóðunum og öðrum hjálparsamtökum af mat, vatni og lyfjum til þúsunda fólks, aðallega Rohingja, í fjöllunum í norðurhluta Rakhine-fylkis. Stór hluti Rohingja reiða sig á aðstoð til að lifa af og hafa þurft þess áður en síðustu ofbeldisaðgerðir hófust. Þessi höft hafa sett líf tugi þúsunda fólks í enn frekari hættu og sýna algjöra lítilsvirðingu fyrir mannslífum.

Ástandið í tölum

Um 150 þúsund –fjöldi Rohingja sem flúið hefur til Bangladess á fyrstu tveimur vikum neyðarástandsins

1,1 milljón – fjöldi Rohingja sem er aðallega í Rahkhine-fylki

27 þúsund – Fjöldi fólks af öðrum etnískum minnihlutahópi á vergangi í Rakhine-fylki

400 – lágmarksfjöldi dauðsfalla fram til þessa samkvæmt stjórnvöldum í Mjanmar

Til baka