Ísrael/hernumdu svæði Palestínu: Brotið gegn alþjóðalögum á Gasa

15.5.2018

„Hér er enn eitt skelfilega dæmið um óhóflega beitingu aflsmunar og skotvopna á óforsvaranlegan hátt. Þetta er brot á alþjóðlegum stöðlum og í sumum tilfellum virðist vera um að ræða morð af ásettu ráði sem telst vera stríðsglæpur,“ segir Philip Luther, yfirmaður rannsóknar-og aðgerðadeildar Miðausturlanda og Norður-Afríku hjá Amnesty International í kjölfar frétta í gær um að tugir Palestínubúa hafi verið myrtir og hundruð særðir af ísraelska hernum í mótmælum við girðinguna sem aðskilur Gasa og Ísrael.

„Myndbandsupptaka frá Gasa veldur verulegum áhyggjum og þar sem ástandið fer hríðversnandi verða yfirvöld í Ísrael að stöðva herinn strax til að forðast frekara mannfall og alvarleg meiðsli.“

Í síðasta mánuði kallaði Amnesty International eftir því að alþjóðasamfélagið stöðvaði flutninga á vopnum og herbúnaði til Ísrael vegna óhóflegra viðbragða við mótmælum á Gasa. Aukið mannfall og fjöldi særðra sýnir enn fremur fram á nauðsyn vopnaviðskiptabanns.

Jafnvel þó sumir mótmælendur kunni að hafa beitt ofbeldi þá réttlætir það ekki notkun skotfæra. Samkvæmt alþjóðalögum er notkun skotvopna eingöngu leyfileg í aðstæðum upp á líf og dauða eða þar sem bráð hætta er á alvarlegu líkamlegu tjóni.

Fyrstu læknaskýrslur frá Gasa gefa til kynna að tugir fólks hafi verið skotnir í höfuðið eða bringu. Amnesty International gerði rannsókn í síðasta mánuði um Gasa sem sýnir að ísraelski herinn drepur mótmælendur og veldur þeim líkamlegu tjóni án þess að nokkur ógn stafar af þeim. Þar er greint frá því að vitni, myndbönd og ljósmyndir styðji við það. Áverkar sýna einnig fram á að ísraelskir hermenn noti vopn sem eru hönnuð til að valda sem mestum skaða.

Á meðal fórnarlamba er 23 ára fótboltamaður, Mohammad Khalil Obeid, sem var skotinn í bæði hnén á meðan hann tók upp myndband af sér á afskekktu svæði í töluverðri fjarlægð frá girðingunni og ekki er hægt að sjá að ísraelskum hermönnum standi nokkur ógn af honum. Hann þarf nú hnjáliðaskipti til að geta gengið á ný. „Sem palestínskur leikmaður hefur líf mitt verið eyðilagt. Mig dreymdi um að spila fótbolta erlendis og til að halda á lofti palestínska fánanum erlendis til að sýna að við erum ekki hryðjuverkamenn,“ sagði hann Amnesty International.

Myndbandi sem hefur verið deilt víða á samfélagsmiðlum sýnir Abd Al-Fattah Abd -Nabi, 19 ára, vera skotinn þann 30. mars þar sem hann hleypur frá girðingunni á meðan hann heldur á dekki og snýr baki í ísraelska hermenn. Hann lét lífið eftir skot í hnakkann. Þann 20. apríl síðastliðinn var Mohammad Ayyoub, 14 ára, einnig drepinn með skoti í hnakkann.

Amnesty International hefur kallað eftir því að öll ríki setji vopnaviðskiptabann á Ísrael og vopnaða palestínska hópa. Verði það ekki gert mun áfram verða kynt undir alvarlegum mannréttindabrotum gagnvart mönnum, konum og börnum sem þurfa að þola afleiðingar ástandsins á Gasa. Þetta fólk er aðeins að mótmæla þeim óbærilegu aðstæðum sem það býr við og krefjast réttar síns til að fá að snúa aftur til heimila sinna sem nú tilheyra Ísrael.


Til baka