Leiðist að hlaupa en vill leggja mannréttindabaráttunni lið

Þórdís Nadia Semichat ætlar að hlaupa 3 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu 19. ágúst og safna áheitum fyrir Amnesty International.

2.8.2017

Textasmiðurinn, uppistandarinn, sviðshöfundurinn og danskennarinn Þórdís Nadia Semichat ætlar að taka þátt í skemmtiskokki Reykjavíkurmaraþonsins þann 19. ágúst næstkomandi og hleypur fyrir Amnesty International.

Nadia hefur styrkt Íslandsdeild Amnesty International síðan árið 2012 í gegnum netákall samtakanna og segist vilja leggja á sig að hlaupa þar sem henni finnist hreyfingin flott samtök sem berjist fyrir mannréttindum. Það sé jú mjög mikilvægt. „Maður er mannlegur og vill að allir búi við jafnrétti og að fólk fái sömu aðstoð alls staðar.“

Þórdís Nadia Semichat hleypur fyrir Amnesty International í Reykjavíkurmaraþoninu í ár.


„Stundum tekur Amnesty International fyrir málefni frá Túnis en pabbi minn er þaðan. Þegar ég bjó í Túnis þá leið mér eins og ég væri algjörlega fordekruð,“ Segir Nadia. „Beisikk hlutir eins og að geta drukkið vatnið úr krananum. Það er ekki hægt í Túnis. Ég átti vini sem voru námsmenn og þurftu hreinlega að skrapa saman peningum til að eiga fyrir mat og vatni og námsfólk getur t.d. ekki fengið námslán. Það er ekki í boði,“ segir Nadia.

Nadia er alls enginn hlaupari og er því ekki að taka þátt af hlaupaánægju. „Ég reyndi einu sinni að skokka á hverjum degi í svona þrjá mánuði en þá gafst ég upp. Mér fannst það ekkert sérlega gaman en hef heyrt það að maður þurfi að þjálfa sig upp í að komast yfir leiðindin. Ég náði ekki svo langt,“ segir hún. Hún segir markmiðið vera að klára en vill auðvitað safna áheitum fyrir Amnesty International. Og Nadia væri alveg til í félagskap í hlaupinu og skorar því á uppistandarann og vinkonu sína Bylgju Babýlóns til hlaupa með sér til styrktar Amnesty International.

Íslandsdeild Amnesty International vonar að Bylgja taki áskoruninni og skorar jafnframt á vini og samstarfsfólk Nadiu að heita á hana í Reykjavíkurmaraþoninu og styðja þannig við mannréttindabaráttuna. Hægt er að heita á Nadiu og aðra Amnesty-hlaupara  hér

Til baka