Menningarnæturveisla hjá Íslandsdeild Amnesty International

17.8.2017

Það verður mikið um að vera hjá Íslandsdeild Amnesty International um helgina en þá fer Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka fram í 34. sinn og Menningarnótt í Reykjavík verður haldin í 22. sinn.

Hlauparar-2017 Anna Lilja, Óskar, Nadia og Majid ætla öll að hlaupa til góðs fyrir Amnesty International á laugardaginn.


Hlaupum til góðs í Reykjavíkurmaraþoninu

Á fjórða tug hlaupara ætlar að hlaupa til góðs fyrir Amnesty International í ár, þar á meðal er hið kraftmikla fólk Anna Lilja, Nadia, Óskar og Majid en viðtöl við þau hafa birst á heimasíðunni okkar undarfarnar vikur. Starfsfólk og ungliðar samtakanna munu standa vaktina á hliðarlínunni í Reykjavíkurmaraþoninu og hvetja hlauparana okkar áfram.

Við skorum á þig að leggja mannréttindabaráttunni enn frekar lið og heita á Amnesty-hlauparana okkar á www.hlaupastyrkur.is.

Opið hús á Menningarnótt

Þá fer Vöfflukaffi í Þingholtunum fram á skrifstofu samtakanna að Þingholtsstræti 27 líkt og undanfarin ár en húsið verður opið á milli 14 og 16. Vöfflukaffið verður með tyrknesku ívafi í ár til stuðnings öllu því baráttufólki fyrir mannréttindum sem situr í fangelsi í Tyrklandi um þessar mundir. Boðið verður upp á tyrkneska tónlist, tyrkneskt kaffi og meðlæti auk hinna hefðbundnu íslensku vaffla. Gestum býðst að taka þátt í undirskriftasöfnun og ljósmyndaaðgerð samtakanna til styrktar mannréttindabaráttunni í Tyrklandi. Gaman væri að sjá sem flesta í kaffi hjá okkur á laugardaginn!

Vofflur-2017 Tyrkneskt baklava og íslenskar vöfflur verða á boðstólnum á opnu húsi hjá Amnesty International á Menningarnótt.


Til baka