Menntaskólinn í Reykjavík og Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu söfnuðu flestum undirskriftum!

20.2.2018

MR-vinningur

Árlega heldur Íslandsdeild Amnesty International bréfamaraþonið Bréf til bjargar lífi þar sem samtökin hvetja einstaklinga til að taka höndum saman og styðja við bakið á þolendum mannréttindabrota með pennann að vopni. Þar hvetjum við einstaklinga, vinnustaði og menntastofnanir til að leggja hönd á plóg og hafa Íslendingar ávallt svarað kallinu.  Eins og við greindum frá um daginn þá hafa aldrei fleiri Íslendingar lagt mannréttindabaráttunni lið í þessarri árlegu herferð eins og árið 2017.  Söfnuðust hvorki meira né minna en 94.546 undirskriftir, bréf, stuðningskveðjur, SMS- og netáköll þolendunum til stuðnings. Framhaldsskólanemar og unglingar í félagsmiðstöðvum landsins spiluðu þar stóra rullu. 


Því sem fyrr efndi Íslandsdeild Amnesty International til samkeppni meðal framhaldsskóla og félagsmiðstöðva landsins um mestan fjölda undirskrifta í tengslum við Bréf til bjargar lífi. Nemendur úr 35 framhaldsskólum og 16 félagsmiðstöðvum svöruðu kallinu og söfnuðu 17.720 undirskriftum með ákalli um úrbætur  í þeim 10 málum sem samtökin tóku upp að þessu sinni. Nemendur við Menntaskólann í Reykjavík söfnuðu flestum undirskriftum af þeim framhaldsskólum sem tóku þátt en þeir söfnuðu samtals 2.492 undirskriftum. Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu sem staðsettur er á Höfn í Hornafirði náði besta árangrinum miðað við nemendafjölda og söfnuðu 2.312 undirskriftum sem gera 20.5 undirskriftir per nemenda. Aldrei hefur neinn skóli safnað öðrum eins fjölda miðað við nemendafjölda. Vel gert MR og FAS. 

27858194_1536499203071405_428922655723961717_n .


Þá bar félagsmiðstöðin Þrykkjan á Höfn í Hornafirði sigur úr býtum í félagsmiðstöðvakeppninni en hún safnaði 2.160 undirskriftum sem er besti árangur félagsmiðstöðvar í sögu keppninnar. Það er því greinilega einhver sterkur mannréttindaandi í vatninu á Höfn. 


Fyrir hönd Íslandsdeildar Amnesty International afhentu nýlega þau Magnús Guðmundsson aðgerðastjóri og Vala Ósk Bergsveinsdóttir fræðslustjóri þessum ungu eldhugum viðurkenningu og gjöf frá deildinni. MR fékk afhentan farandbikar sem Steingrímur Eyfjörð myndlistarmaður hannaði. Gripurinn hafði prýtt verðlaunaskáp Verslunarskóla Íslands sem hefur unnið keppnina þrisvar sinnum á síðustu fimm árum en núna í ár fékk hann nýtt heimili. 


FAS og Þrykkjan fengu afhent verðlaun við hátíðlega athöfn þar eystra og á bæjarfélagið allt mikið hrós skilið. 

Íslandsdeild Amnesty International vill þakka öllum þeim ungmennum sem lögðu okkur lið. Án ykkar væri þessi Bréf til bjargar lífi ekki eins flottur viðburður og raun ber vitni.

 

Til baka