Metþátttaka Íslendinga í Bréf til bjargar lífi árið 2017

19.1.2018

Aldrei hafa fleiri Íslendingar lagt mannréttindabaráttunni lið í hinni árlegu herferð Amnesty International Bréf til bjargar lífi eins og árið 2017. Alls voru tíu mál einstaklinga og hópa sem sæta grófum mannréttindabrotum tekin fyrir og söfnuðust hvorki meira né minna en 94.546 undirskriftir, bréf, stuðningskveðjur, sms- og netáköll þolendunum til stuðnings. Það verður að teljast undraverður árangur enda var Ísland á pari við undirskriftasafnanir í löndum eins og Svíþjóð og Bandaríkin, lönd sem telja milljónir og hundruð milljóna íbúa. Þessi einstaki samstöðumáttur Íslendinga er þakkarverður og við vitum að hann skilar raunverulegum breytingum í lífi þeirra sem minnst mega sín. Á hverju ári verðum við vitni að því þegar samviskufangi er leystur úr haldi, fangar hljóta mannúðlegri meðferð, þolandi pyndinga sér réttlætinu fullnægt, fangi á dauðadeild er náðaður eða ómannúðlegri löggjöf er breytt. Án efa verður engin undantekning þar um í ár.

Bréf til bjargar lífi fór fram á yfir 30 stöðum um land allt land og átti fjöldi einstaklinga veg og vanda að framkvæmd þess í sínu sveitafélagi. Margir þessarra einstaklinga hafa staðið að Bréf til bjargar lífi í árafjöld með ótrúlegum árangri eins og Guðlaug Úlfarsdóttir á Höfn í Hornafirði, Ragnhildur Rós Sigurðardóttir á Egilsstöðum og Sigursteinn Sigurðsson í Borgarnesi. Auður Aðalsteinsdóttir á Sauðárkróki tók þátt í Bréf til bjargar lífi á síðasta ári, þriðja árið í röð og safnaði ein og óstudd alls 926 undirskriftum. Þá stóð Bjarney Inga Sigurðardóttir einnig að viðburði þriðja árið í röð á Stykkishólmi og Dagný Þrastardóttir á Ísafirði hélt sinn fjórða viðburð í Rammagerðinni. Halldóra Gunnarsdóttir á Kópaskeri lét einnig til sín taka í versluninni Skerjakolla en hún hefur einnig boðið fram krafta sína í þágu mannréttinda í mörg ár.

Tíu öflugir einstaklingar á Akureyri stigu fram og skipulögðu tvo frábæra viðburði í heimabæ sínum, einn á Amtsbókasafninu og annan í Pennanum Eymundsson. Flestir þessara vösku einstaklinga voru að bjóða fram krafta sína í fyrsta sinn.  

Enn fleiri bókasöfn bættust í hópinn á síðasta ári og ber þar helst að nefna Bókasafnið í Hveragerði og Þorlákshöfn, auk þess sem Menningarmiðstöð Þingeyinga og Menningarhúsið Berg í Dalvíkurbyggð tóku þátt í fyrsta sinn. Önnur bókasöfn vítt og breitt um landið hafa tekið þátt frá upphafi undir dyggri stjórn bókasafnsvarða á hverjum stað.

Öllu þessu einstaka fólki þakkar Íslandsdeild Amnesty International hjartanlega fyrir stuðninginn, atorkuna og fórnfýsina í þágu þolenda mannréttindabrota á síðasta ári.

Hápunktur herferðarinnar á síðasta ári var fimm daga gagnvirk ljósainnsetning á Hallgrímskirkju þar sem risastóru kerti var varpað á framhlið kirkjunnar og almenningi boðið að kynna sér málin tíu og skrifa undir þau á spjaldtölvum sem voru á staðnum.

Nöfnum allra þeirra sem skrifuðu undir áköllin tíu til viðkomandi stjórnvalda var varpað á framhlið kirkjunnar og kertaloganum þannig haldið lifandi. Þátttakendur létu ljós sitt skína á þolendur mannréttindabrota og þrýstu á um bjartari framtíð fyrir þessa einstaklinga og heiminn allan. 

Þessi fallega hugmynd kveiknaði í samstarfi Íslandsdeildarinnar við hugmyndastofuna Serious Business Agency sem rekur sínar starfsstöðvar í Þýskalandi en listamaðurinn Jaime Reyes frá Venesúela var fenginn til að skapa og stýra ljósainnsetninguna.  

Ljósainnsetningin var sýnileg vítt og breitt um Reykjavík og dró að sér gesti og gangandi sem ljáðu undirskrift sína til að halda loganum lifandi bæði með táknrænum hætti á kerti kirkjunnar og í reynd í lífi þeirra sem beittir eru skelfilegum órétti.

Gestir á öllum aldri og frá öllum heimshornum tóku þátt í að halda loganum lifandi á fyrstu fimm dögum desembermánaðar sem í huga margra tóku á sig töfrandi mynd í ljósaflaumnum. Alls söfnuðust 11.200 undirskriftir fyrir framan Hallgrímskirkju á fimm fyrstu dögunum í dimmum desember og með því var vonarljós kveikt í lífi þolenda mannréttindabrota og myrkrir staðir lýstir upp.

Þessi einstaki viðburður hefði aldrei orðið að veruleika ef einstök velvild og stuðnings starfsfólks og framkvæmdastjóra Hallgrímskirkju hefði ekki notið við. Starfsfólk Íslandsdeildar Amnesty International þakkar heilshugar fyrir gott og gjöfult samstarf þar sem allir lögðust á eitt um að lýsa upp myrkrið í lífi þeirra sem sæta grófustu mannréttindabrotum heims og koma í veg fyrir að slík brot falli ekki í gleymsku og dá.  

Eitt þeirra mála sem tekið var fyrir í ár var mál Shackeliu Jackson en hún heyr djarfa baráttu til að ná fram réttlæti fyrir morðið á bróður sínum Nakiea. Hann var skotinn til bana af lögreglu árið 2014. Látum Shackeliu eiga síðasta orðið: „ …Þið eruð staðfesting á þeim alþjóðlega stuðningi sem ég þurfti á að halda til að endurskrifa sögu ranginda og ég er þakklát því að saga Nakiea átti nægilegan hljómgrunn hjá ykkur til að ég gæti notið stuðnings ykkar og seiglu. Þið hafið gert ferðalagið þolanlegt, stækkað vettvang baráttunnar og veitt þá leiðsögn og skapað það stuðningsnet sem er nauðsynlegt til að leiða fram breytingar í þessu ferli. Þið gáfuð mér ekki aðeins öryggi og styrk heldur einnig miðil til að endurskilgreina uppgerðar sýn á Jamaíka og þjóðarleiðtoga okkar… Þið eruð hinar raunverulegu hetjur. Ósérplægni ykkar og eldmóður í baráttunni fyrir mannréttindum og mannlegri reisn um heim allan endurspeglast öllum þeim fjölda fólks sem fylkist á bak við herferðir ykkar og þeim árangri sem þið hafið uppskorið fyrir þolendur mannréttindabrota. Ég gæti haldið áfram en ég er viss um að kjarninn í þakklæti mínu hafi komist til skila svo ég segi að endingu, friður sé með ykkur, haldið áfram að vera kyndilberar breytinga og ljósið á vegi okkar…“

 

Til baka