Mjanmar: Sönnunargögn um kerfisbundna glæpi gegn mannkyni og stríðsglæpi gegn Rohingjum

1.11.2017

Flóttamannabúðir í Bangladess.

Að minnsta kosti 530.000 Rohingjar, karlmenn, konur og börn hafa flúið norðurhluta Rahkine-fylkis á síðustu vikum vegna kerfisbundinna og útbreiddra íkveikja, nauðgana og morða af hálfu öryggissveita Mjanmar.

Skýrsla Amnesty International, My World Is Finished': Rohingya Targeted in Crimes against Humanity in Myanmar lýsir því hvernig öryggissveitir Mjanmar heyja kerfisbundið og vægðarlaust stríð gegn Rohingja-fólki í norðurhluta Rakhine-fylki í kjölfar þess að vopnaður hópur Rohingja  réðst gegn 30 varðstöðvum öryggissveitanna þann 25. ágúst síðastliðinn.

Tugir sjónarvotta að grófasta ofbeldinu bendluðu hvað eftir annað tilteknar herdeildir við verknaðinn, þeirra á meðal vesturstjórn hersins,  33ju Léttfótgöngudeildina og landamæralögregluna.

„Í þessari vel útfærðu herferð hafa öryggissveitir Mjanmar hefnt sín grimmilega á gjörvöllu Rohingja-fólkinu í norðurhluta Rakhine-fylki í augljósri tilraun sinni til að hrekja það úr landi. Þessi voðaverk hafa leitt til verstu flóttamannaneyðar í áratugi á svæðinu,“ segir Tirana Hassan framkvæmdastjóri neyðarviðbragða hjá Amnesty International.

„Afhjúpun þessara viðbjóðslegu glæpa er fyrsta skrefið á langri vegferð í átt að réttlæti. Þeir sem ábyrgð bera á voðaverkunum verða að svara til saka. Her Mjanmar getur ekki sópað þessum alvarlegu mannréttindabrotum undir teppi með því að lýsa því yfir að enn ein uppgerðarrannsóknin fari fram. Yfirhershöfðinginn Min Aung Hlaing verður tafarlaust að grípa til aðgerða til að stöðva hersveitir sínar í að fremja voðaverk.“ 


.Glæpir gegn mannkyni
Frásagnir vitna, gervihnattamyndir og gögn, auk mynda- og myndbands sannana, sem Amnesty International hefur viðað að sér; bendir allt til sömu niðurstöðu: hundruð þúsunda Rohingja kvenna, karlmanna og barna eru þolendur kerfisbundinna og útbreiddra árása sem jafngilda glæpum gegn mannkyni. 

Rómarsamþykktin um Alþjóðlega sakamáladómstólinn geymir lista yfir ellefu tegundir af verknuðum sem framdir eru vísvitandi í árásum og jafngilda glæpi gegn mannkyni. Amnesty International hefur ítrekað skráð a.m.k. sex slíkar tegundir af ofbeldisverkum í norðurhluta Rakine-fylkis: morð, nauðungarflutninga, pyndingar, nauðganir og aðrar tegundir kynferðisofbeldis, ofsóknir og annað ómannúðlegt athæfi eins og að neita fólki um mat og aðrar nauðsynjavörur.

Þessi niðurstaða byggir á frásögnum rúmlega 120 Rohingja, bæði karlmanna og kvenna sem flúið hafa til Bangladess á síðustu vikum, ásamt viðtölum við heilbrigðisstarfsfólk, hjálparstarfsfólk, blaðamenn og embættismenn í Bangladess.

Sérfræðingar á vegum Amnesty International staðfestu frásagnir fjölmargra sjónarvotta af glæpum öryggissveita Mjanmar með því að greina gervihnattamyndir og gögn, auk þess að sannreyna myndir og myndskeið sem tekin voru í Rakhine-fylki. Samtökin hafa ennfremur farið fram á aðgengi að Rakhine-fylki til að geta rannsakað mannréttindabrot á staðnum þeirra á meðal brot sem vopnaðir hópar Rohingja hafa gerst sekir um að fremja. Amnesty International heldur áfram að kalla eftir óhindruðu aðgengi rannsakenda á vegum Sameinuðu þjóðanna og annarra óháðra rannsakenda.


Mohammed Ismail.

Fjöldamorð

Klukkustundirnar og dagana eftir árásir vopnaðra hópa Rohingja þann 25. ágúst umkringdu öryggissveitir Mjanmar, stundum í fylgd sjálfskipaðrar löggæslusveitar á staðnum, þorp Rohingja í norðurhluta Rakhine-fylkis. Þegar Rohingja konur, karlmenn og börn flúðu heimili sín hófu hermenn og lögregla skothríð með þeim afleiðingum að hundruð létust eða særðust alvarlega. Þau sem lifðu af árásirnar lýstu því hvernig hlaupið var í nálægðar hæðir og hrísgrjónaakra til að fela sig þar til öryggissveitirnar hurfu frá. Aldraðir einstaklingar og fatlaðir gátu oft ekki flúið og brunnu inni á heimilum sínum sem herinn hafði kveikt í. Þetta mynstur var endurtekið á fjölda staða vítt og breitt í bæjarumdæmunum Maungdaw, Rathedaung og Buthidaung. Öryggissveitir Mjanmar virðast hafa farið fram með mestum offorsa í þorpum nærri þeim stöðum þar sem vopnaðir hópar Rohingja gerðu árásir. 

Amnesty International skráði slíkar árásir í fimm þorpum þar sem a.m.k. tylft manna lét lífið: Chein Kar Li, Koe Tan Kauk og Chut Pyin, allt þorp í Rathedaung bæjarumdæminu og Inn Din og Min Gyi í Maungdaw bæjarumdæminu. Í Chut Pyin og Min Gyi var tala látinna sérstaklega há þar sem tugir kvenna, karlmanna og barna voru myrt af öryggissveitum Mjanmar.

Amnesty International tók viðtöl við 17 eftirlifendur fjöldamorðanna í Chut Pyin en sex þeirra höfðu særst í byssuárás. Nærri öll höfðu misst a.m.k. einn fjölskyldumeðlim og sumir höfðu misst marga. Þau lýstu því öll hvernig öryggissveitir Mjanmar, í fylgd landamæralögreglu og sjálfskipaðrar löggæslusveitar, hófu skothríð á þá sem flúðu og brenndu síðan kerfisbundið hús og byggingar í eigu Rohingja.

Fatima, 12 ára, sagði Amnesty International að hún hafi verið heima hjá sér ásamt foreldrum sínum, átta systkinum og ömmu sinni þegar þau sáu eldtungur rísa í öðrum hluta þorpsins sem þau bjuggu í. Hún sagði að þegar fjölskyldan flúði heimilið hafi menn í einkennisbúningum tekið að hleypa af skotum á þau aftan frá. Fatima varð vitni að því þegar bæði faðir hennar og 10 ára systir urðu fyrir skoti en hún varð einnig fyrir skoti aftan á hægra fæti, rétt fyrir ofan hné.

„Ég féll á jörðina en nágranni minn greip mig og hélt á mér,“ rifjar Fatima upp. Eftir vikutíma á flótta fékk hún loks meðferð við sári sínu í Bangladess. Móðir hennar og eldri bróðir voru einnig myrt í Chyt Pyin. 


Fatima 12 ára.

Amnesty International sendi ljósmynd af sári Fatimu til sérfræðings í réttarlæknisfræðum sem fullyrti að frásögn hennar kæmi heim og saman við þá staðreynd að sárið hafi komið til af byssuskoti sem fór inn í lærið aftanvert. Heilbrigðisstarfsfólk í Bangladess sem gerði að sárum fólks lýsti því að mörg skotsárin virtust afleiðing þegar skoti var hleypt á fólkið aftan frá. Þetta passar við endurteknar lýsingar vitna um að herinn hafi skotið á Rohingja þegar þeir reyndu að flýja.

Í Chein Kar Li og Koe Tan Kauk, tveimur nágrannaþorpum skráði Amnesty International sama mynstur árása af hálfu Mjanmar hersins.

Sona Mia, 77 ára, greindi Amnesty International frá því að hann var staddur á heimili sínu í Koe Tan Kauk þann 27. ágúst þegar hermenn umkringdu þorpið og hófu skothríð. Tvítug dóttir hans Rayna Khatun glímdi við fötlun sem gerði henni ókleift að ganga og tala. Einn sonur Sona setti Rayna á axlir sér og fjölskyldan komst áleiðis að hæð við endimörk þorpsins. Þegar hún heyrði að skothríðin færðist sífellt nær ákváð hún að skilja Raynu eftir í yfirgefnu húsi.

„Við héldum að við hefðum þetta ekki af,“ rifjar Sona Mia upp. „Ég sagði henni að sitja þarna og að við kæmum aftur að sækja hana… Eftir að við komum upp á hæðina sáum við húsið þar sem við skildum við hana. Það var í nokkurri fjarlægð en við sáum það engu að síður. Hermenn brenndu hús og að lokum sáum við húsið [sem Rayna var í], það stóð í björtum logum.“

Þegar herinn hafði yfirgefið þorpið seint um eftirmiðdaginn, fóru synir Sona Mia niður hæðina og fundu brennt lík Ranyu Khatun innan um brunarústir hússins.

Nauðganir og annað kynferðisofbeldi.

Amnesty International ræddi við sjö þolendur kynferðisofbeldis sem öryggissveitir Mjanmar bera ábyrgð á. Af þeim var fjórum konum og 15 ára stúlku nauðgað í sitt hvorum hópnum, ásamt tveimur til fimm öðrum konum og stúlkum. Nauðganirnar áttu sér stað í tveimur þorpum sem samtökin rannsökuðu: bæjarumdæmunum Min Gyi og Maungdaw.

Eins og Human Rights Watch og The Guardian  hafa greint frá eltu hermenn í Min Gyi Rohingja sem höfðu flúið að árbakkanum að morgni dags þann 30. ágúst. Þar aðskildu hermennirnir karlmenn og pilta frá konum og ungum börnum.

Eftir að hafa hleypt af skothríð og myrt a.m.k. tugi manna og eldri pilta, ásamt nokkrum konum og yngri börnum, smöluðu hermennirnir konunum í hópum inn í nærliggjandi hús þar sem þeir nauðguðu þeim áður en þeir kveiktu í húsunum.

S.K., 30 ára, tjáði Amnesty International að eftir að hafa horft á aftökurnar voru hún og margar aðrar konur og ung börn færð ofan í skurð þar sem þau voru þvinguð til að standa í vatni sem náði þeim upp að hnjám.

„Þeir fóru með konurnar í hópum inn í hin ýmsu hús… fimm okkar voru teknar af fjórum hermönnum. Þeir tóku peningana okkar og eigur og síðar börðu þeir okkur með tréspýtu. Börnin mín voru með mér. Þeir börðu þau einnig. Shafi, tveggja ára sonur minn, var barinn harkalega með spýtu. Eitt högg og hann var dáinn… þrjú barna minna voru myrt. Mohamed Osman, 10 ára og Mohamed Saddiq, 5 ára, voru einnig myrtir. Aðrar konur sem voru með mér í húsinu áttu einnig börn sem voru myrt.

„Allar konurnar voru berháttaðar… þeir voru með mjög harðar tréspýtur. Fyrst börðu þeir okkur í höfuðið til að veikja okkur. Síðan börðu þeir okkur í kynfærin með tréspýtunni. Að því loknu nauðguðu þeir okkur. Sitthvor hermaðurinn fyrir hverja konu.“ Eftir að hafa nauðgað konunum og stúlkunum kveiktu hermennirnir í húsunum og létust mörg fórnarlambanna sem þar voru inni. 

Shara Jahan brenndist illa í árás hersins.

Þorp brennd til grunna á skipulagðan hátt
Þann 3. október greindu aðilar á vegum gervihnattaáætlunar Sameinuðu þjóðanna frá því að þeir hefðu borið kennsl á 20.7 km2 svæði þar sem byggingar höfðu verið eyðilagðar í bruna frá 25. ágúst í bæjarumdæmunum Maungdaw og Buthidaung. Að öllum líkindum er umfang eyðileggingarinnar mun meira þar sem þétt reykský hafði áhrif á það hvað gervihnattamyndirnar gátu greint. Athugun Amnesty International á gögnum um eldsvoða frá fjarstýrðum gervihnetti leiddi í ljós a.m.k. 156 stórbruna í norðurhluta Rakhine-fylkis frá 25. ágúst en að öllum líkindum er einnig um vanmat þar að ræða.  

Gervihnattamyndirnar sýna á skýran hátt það sem vitni höfðu endurtekið greint Amnesty International frá þ.e. að öryggissveitir Mjanmar brenndu aðeins þorp eða svæði sem tilheyrðu Rohingjum. Gervihnattamyndir sýna til dæmis stór svæði sem voru jöfnuð við jörðu í bruna við hlið annarra svæða sem voru látin ósnert. Gervihnattamyndir sem sýna ósnert svæði, ásamt frásögnum Rohingja um hvar þeir og aðrir þjóðernisminnihlutahópar bjuggu í þorpunum, benda til þess að einungis svæði Rohingja hafi verið jöfnuð við jörðu.

„Sé horft til viðvarandi afneitunar stjórnvalda í Mjanmar mætti ætla að þau hafi talið sig geta komist upp með fjöldamorð. En nútímatækni ásamt hárnákvæmri mannréttindarannsókn kemur upp um stjórnvöld,“ segir Tirana Hassan.
„Það er kominn tími til að alþjóðasamfélagið geri meira en að mótmæla opinberlega og grípi til aðgerða sem binda enda á ofbeldið sem hefur hrakið rúmlega hálfa milljón Rohingja frá Mjanmar. Alþjóðasamfélagið á að loka á hernaðarsamstarf, koma á vopnasölubanni og innleiða refsiaðgerðir gegn þeim einstaklingum sem ábyrgð bera á brotunum. Senda verður skýr skilaboð um að glæpir gegn mannkyni í Rakhine-fylki verði ekki liðnir.“

„Alþjóðasamfélagið verður að tryggja að þjóðarhreinsanir munu ekki ná ólöglegu og vítaverðu markmiði sínu. Styðja verður við stjórnvöld í Bangladess að veita Rohingjum sem leggja á flótta öruggt skjól og tryggja að Mjanmar virði mannréttindi þeirra til að snúa aftur til heimalandsins í öryggi, með reisn og sjálfviljugir og krefjast þess að stjórnvöld í Mjanmar bindi í eitt skipti fyrir öll enda á kerfisbundna mismunun gegn Rohingjum.“Til baka