Síerra Leóne: Útbreiddur mæðradauði er mannréttindaneyð

23.9.2009

 Myndband um mæðradauða í Síerra Leóne

 

Amnesty International birti þann 22. september skýrslu um mæðraheilsu í Sierra Leóne sem ber heitið: Out of Reach: The Cost of Maternal Health in Sierra Leone. Í skýrslunni er að finna frásagnir kvenna og stúlkna sem lifa án aðgangs að lífsnauðsynlegri læknishjálp á meðgöngu, þær eru of fátækar til að greiða fyrir slíka aðstoð. Í Síerra Leóne á áttunda hver kona á hættu að deyja á meðan á meðgöngu stendur eða við barnsburð.

Yfirvöld í landinu hafa heitið öllum þunguðum konum ókeypis heilsugæslu en ekki staðið við þau loforð. Þúsundir kvenna láta lífið ár hvert vegna skorts á aðgengi að grunnheilsugæslu. 

 

Á fæðingardeild í Síerra Leóne

Á fæðingardeild í Síerra Leóne

 

Á yfirstandandi allsherjarþingi Sameinuðu verður meðal annars aðgangur að heilsugæslu í þróunarlöndum til umræðu og talið er að tilkynnt verði um aukið fjármagn til heilsugæslu með sérstakri áherslu á mæður og ungabörn. Mikil þörf er á auknu fjármagni til heilsugæslu í Síerra Leóne, en án raunverulegra aðgerða yfirvalda er hætta á að það muni ekki ná til kvenna og barna sem búa í afskektum héruðum og eru í raun í mestri hættu. Lífslíkur kvenna og stúlkna verða ekki auknar nema til komi ábyrg stjórnun og uppbygging heilsugæslu og skýr ábyrgðaskylda yfirvalda.  Peningar einir og sér munu ekki leysa vandamálið. Að baki útbreidds mæðradauða í Síerra Leóne eru margvíslegar ástæður þeirra á meðal alvarleg mismunun í garð kvenna og lág félagsleg staða þeirra. Algengt er að stúlkur séu þvingaðar í hjónaband ungar að aldri, útilokaðar frá menntun og sæti kynbundu ofbeldi. Yfirvöld hafa ekki sett heilsu kvenna í forgang.

Amnesty International telur að fátækt sé mannréttindamál og hvetja samtökin til þess að endi verði bundinn á mannréttindabrot sem ýta undir og viðhalda fátækt. Baráttan gegn mæðradauða er liður í baráttu samtakanna gegn fátækt og þeim mannréttindabrotum sem viðhalda henni.  
Til baka