Tímamótadómur vegna notkunar á barnahermönnum

16.3.2012Thomas Lubanga Dyilo

Thomas Lubanga Dyilo. Mynd frá APGraphicsBank

Þann 14. mars kvað Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn upp dóm í máli Thomas Lubanga Dyilo, leiðtoga vopnaðs hóps í Kongó. Hann var dæmdur fyrir að nota börn sem hermenn í vopnuðum átökum. Amnesty International fagnar dómnum og telur að stórt skref hafi verið stigið í þá átt að draga til ábyrgðar þá, sem gerast sekir um þjóðarmorð, glæpi gegn mannkyni eða stríðsglæpi.


Thomas Lubanga Dyilo var dæmdur fyrir stríðsglæpi, sem framdir voru þegar börn undir 15 ára aldri voru fengin til að gegna hermennsku í Forces patriotiques pour la libération du Congo (FPLC), í vopnuðum átökum í Ituri-héraði í Lýðveldinu Kongó á árunum 2002 og 2003.


Thomas Lubanga Dyilo var handtekinn þann 17. mars 2006. Hann er fyrsti einstaklingurinn sem handtekinn var á grundvelli handtökutilskipunar frá Alþjóðlega sakamáladómstólnum. Réttarhöldin yfir honum hófust þann 26. janúar 2009.


Dómurinn sendir skilaboð til þeirra sem enn nota börn sem hermenn í stríði og brjóta gegn þeim á og utan vígvallarins. Hann vinnur gegn því refsileysi sem ríkt hefur vegna þess að yfirvöld í viðkomandi löndum hafa látið hjá líða að rannsaka og draga fólk til ábyrgðar, sem ber ábyrgð á slíkum brotum. Dómurinn þýðir að Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn getur gripið inn í og sótt það til saka.


Barnahermenn eru enn notaðir í vopnuðum átökum hópa í Lýðveldinu Kongó í norðaustur- og austurhluta landsins. Stjórnarher landsins hefur einnig notað barnahermenn.


Amnesty International lýsir yfir vonbrigðum sínum að saksóknari dómstólsins skyldi ekki hafa rannsakað og ákært fyrir önnur brot, sem FPLC er talið hafa staðið fyrir undir stjórn Lubanga Dyilo, meðal annars kynferðislegt ofbeldi gegn stúlkum, sem rænt var, og þannig komið í veg fyrir að mörg önnur fórnarlömb fengju notið réttlætis og skaðabóta.


Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn leitar annarra brotamanna

Því miður hafa stjórnvöld víða gert lítið til að handtaka og framselja aðra, sem taldir eru hafa þvingað börn til hermennsku. Þeirra á meðal eru::

  • Bosco Ntaganda (Lýðveldið Kongó), sem Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn hefur einnig ákært fyrir að nota börn í hermennsku. Hann var, að sögn, undirmaður Thomas Lubanga Dyilo. Stjórnvöld í Kongó halda verndarhendi yfir honum, en hann er nú í stjórnarher landsins.
  • Joseph Kony (Úganda) og aðrir yfirmenn í Andspyrnuher Drottins (Lord's Resistance Army) hafa enn ekki verið handteknir, en þeir hafa verið ákærðir fyrir glæpi gegn mannkyni og stríðsglæpi. Þeir halda sig um þessar mundir ýmist í Mið-Afríkulýðveldinu, norðausturhluta Lýðveldisins Kongó og Suður-Súdan.
  • Omar al-Bashir (Súdan) forseti Súdan hefur verið ákærður fyrir þjóðarmorð, glæpi gegn mannkyni og stríðsglæpi vegna voðaverkanna í Darfúr-héraði í Súdan. Hann hefur enn ekki verið handtekinn þrátt fyrir tíðar heimsóknir til annarra ríkja.


Amnesty International biður nú almenning um að hvetja framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon til að leggja lið sitt við ná til þeirra 11, sem Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn hefur ákært, og vernda íbúa á þeim svæðum.

Til baka