• Anna Lúðvíksdóttir framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Amnesty og Hörður H. Helgason formaður stjórnar, afhenta Ólöfu Nordal undirskriftir

Íslandsdeild Amnesty International afhendir innanríkisráðherra 3557 undirskriftir

20.2.2015

Íslandsdeild Amnesty International hefur á undanförnum dögum gefið almenningi kost á að skrifa undir áskorun til ríkisstjórnar Íslands um að fullgilda valfrjálsa bókun við samning gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

Í dag afhenti Íslandsdeildin Ólöfu Nordal innanríkisráðherra áskorunina þar sem 3557 einstaklingar kalla eftir því að innanríkisráðherra og ríkisstjórn Íslands fullgildi nú þegar valfrjálsu bókunina og sýni þar með í verki að íslensk stjórnvöld láti ekki nægja fyrirheit um að borgararnir verði ekki látnir sæta pyndingum eða annarri vanvirðandi meðferð, heldur verði óháðum eftirlitsaðila falið að fylgjast með því að þau fyrirheit séu efnd.

Árið 1985 var undirritaður af hálfu Íslands samningur Sameinuðu þjóðanna gegn pynd­ing­um og ann­arri grimmi­legri, ómann­legri eða van­v­irðandi meðferð eða refs­ingu. Samkvæmt samningnum skulu aðildarríki hans gera virkar ráðstafanir til að koma í veg fyrir pyndingar í lögsögu sinni og ekki framselja mann til annars ríkis ef veruleg ástæða er til að ætla að hann eigi þar á hættu að sæta pyndingum. Íslensk stjórnvöld fullgiltu samninginn árið 1996.

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti árið 2002 valfrjálsa bókun (OPCAT) við framangreindan samn­ing­. Bókuninni er ætlað að styrkja aðgerðir til að koma í veg fyrir og útrýma pyndingum með því að koma upp reglubundnu eftirliti í aðildarríkjunum, annars vegar með því að koma á fót alþjóðlegri eftirlitsnefnd, sbr. I. og II. kafla bókunarinnar og hins vegar með því að aðildarríkin komi sér upp sínu eigin sjálfstæða eftirliti með því að ákvæðum samningsins sé fylgt. Á flestum hinna Norðurlandanna hefur það verkefni verið falið umboðsmanni þjóðþinga viðkomandi ríkja. Flest ríki Evrópu utan Íslands hafa fullgilt bókunina, þar af öll Norðurlöndin, nú síðast Finnland í október síðastliðinn. Löngu er tímabært að íslensk stjórnvöld fullgildi valfrjálsu bókunina. 


Til baka