Bandaríkin: Við munum berjast gegn tilraunum Trumps til að loka landamærunum

26.1.2017

Þann 25. janúar gaf Donald Trump, nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, út nokkrar tilskipanir sem tengjast málefnum innflytjenda. Þeirra á meðal er tilskipun um að reistur verður múr við landamæri Mexíkó, tilskipun um fleiri varðhaldsstöðvar og að svipta verndarborgir ríkisstyrkjum.

„Við munum berjast gegn þessari hættulegu þróun með öllum tiltækum ráðum,“ sagði Margaret Huang framkvæmdastjóri bandarísku deildar Amnesty International. „Þessi múr felur í sér yfirlýsingu um að útiloka og óttast beri þá sem ekki búa í Bandaríkjunum, sérstaklega fólk frá Suður-Ameríku – og það er hreinlega rangt.“

„Félagar okkar og stuðningsaðilar munu krefjast þess að bandaríska þingið verndi fólk sem leitar hælis, einnig þá einstaklinga sem flýja ofbeldi í Suður-Ameríku. Við munum ekki eftirláta Donald Trump að búa til flóttamannabúðir við landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó eins og þær sem við sjáum í Grikklandi, Ástralíu og öðrum löndum.“

Með því að gera borgir að verndarborgum hefur verið unnt að vernda mannréttindi fólks að hluta til með því að tryggja að viðeigandi yfirvöld hafi getu til að sinna verkefnum sínum. Lögregla á hverjum stað ætti að vinna með samfélaginu að eflingu öryggis borgaranna en ekki starfa sem fulltrúar landamæravörslu landsins.“

Herferð Amnesty Internatonal,Velkomin, gengur út á að vernda réttindi flóttamanna og hælisleitenda með því að skrásetja mannréttindabrot og þrýsta á stjórnvöld að taka sanngjarnan þátt í lausn flóttamannavandans. Amnesty International vill verja verkefni tengd endurbúsetu flóttamanna og vernd hælisleitenda við landamæri Bandaríkjanna í suðri. Slík vernd felst meðal annars í því að berjast gegn varðhaldsvist á börnum og konum sem leita hælis og annars konar aðgerðum sem grafa undan aðgengi að vernd.

Donald Trump hefur að sögn einnig í hyggju að gefa út tilskipanir í tengslum við takmarkanir á komu flóttafólks frá múslimaríkjum. Amnesty International mun halda áfram að fylgjast með gangi mála og bregðast við ef þörf krefur. 

Til baka