Stríð Bandaríkjanna gegn flóttafólki frá múslimaríkjum

1.2.2017

-       Grein eftir Salil Shetty, framkvæmdastjóra Amnesty International

Nú verður engum vettlingatökum beitt. Bandaríkin hafa tekið silkihanskana af. Með nýrri tilskipun um „vernd bandarísku þjóðarinnar gegn hryðjuverkaárásum erlendra ríkisborgara“ hafa Bandaríkin lýst yfir stríði gegn flóttafólki frá múslimaríkjum um heim allan.

Með einu pennastriki hefur forseti Bandaríkjanna sett bann á komu sýrlenskra flóttamanna til landsins og jafnframt fólks frá öðrum ríkjum, þeirra á meðal flóttamanna frá Íran, Írak, Líbíu, Sómalíu, Súdan og Jemen. Þessi sjö ríki eiga tvennt sameiginlegt: Þau eru múslimaríki og ríki þaðan sem meirihluti fólks, sem leitar sér alþjóðlegrar verndar gegn grófum mannréttindabrotum, flýr frá. Fólkið flýr ofsóknir og pyndingar eða önnur gróf mannréttindabrot.

Ef tilskipun Bandaríkjastjórnar væri ekki jafn hættuleg og óhugnanleg og raun ber vitni þá væri hún hlægileg í fáránleika sínum. Hún er fáránleg vegna þess að engin gögn styðja þá skoðun að flóttafólk – múslimar eða aðrir – stefni öryggi fólks frekar í hættu en aðrir borgarar almennt. Flóttamaður er ekki einstaklingur sem fremur hryðjuverk. Flóttamaður er sá sem flýr einstaklinga eða aðila sem fremja hryðjuverk. Samkvæmt alþjóðalögum missa þeir einstaklingar sem fremja slík voðaverk sjálfkrafa réttinn á stöðu flóttamanns. Þar að auki er stefna Bandaríkjanna í innflytjendamálum ein sú harðasta í heimi þar sem flóttafólk og hælisleitendur þurfa að gangast undir ítarlegt og strangt eftirlit við komu sína til landsins.

Tilskipunin er hrein rökleysa og aðhlátursefni en vekur þó engan hlátur. Þetta er mjög ógnvekjandi skjal. Nú þegar við stöndum frammi fyrir alþjóðlegu neyðarástandi þar sem 21 milljón manna hafa neyðst til að flýja heimili sín, bregst eitt voldugasta og auðugasta ríki heims við með því að slökkva á vonarneista þessa fólks um endurbúsetu. Endurbúseta er ferli þar sem viðkvæmir hópir, eins og þolendur pyndinga og konur og stúlkur í hættu í löndum eins og Líbanon, Jórdaníu, Kenía og Pakistan, fá leyfi til að setjast að í öðrum löndum. Með tilskipuninni eru Bandaríkin í raun að snúa baki við þeim löndum sem hýsa flest flóttafólk og refsa viðkvæmasta hópnum meðal þeirra sem þegar eru viðkvæmir.

Enda þótt tilskipunin tali ekki berum orðum um bann við flóttamönnum frá múslimaríkjum er deginum ljósara að takmarkanirnar sem hún beinist að snúa að múlimum. Með þessari aðgerð sinni sendir forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, skýr skilaboð þess efnis að vernda þurfi Bandaríkin gegn múslimum og að þeir séu í eðli sínu hættulegir. Texti tilskipunarinnar greinir til um þá undantekningu að ofsóttir trúarhópar í minnihluta njóti verndar í Bandaríkjunum. Einföld lesning á þessu ákvæði er sú að ríkisstjórn Donald Trumps veiti kristnu fólki, sem flýr múslimsk ríki, endurbúsetu. Þetta ákvæði tilskipunarinnar klæðir mismunun byggða á trú í búning trúarlegra ofsókna. Það er jafnvel vel hugsanlegt að ákvæðið auki á hættuna að kristnir minnihlutahópar í sumum löndum, sem sæta mismunun og ofbeldi af því þeir eru taldir tilheyra framandi trúarbrögðum, verði ofsóttir enn frekar.

Þegar upp er staðið virkar tilskipunin prýðilega sem tæki til liðssöfnunar fyrir vopnaða hópa eins og Íslamska ríkið – hópa sem eru ákafir í að sýna fram á að ríki eins og Bandaríkin séu í eðli sínu óvinveitt múslimum.

Eitt er víst, fólk mun glata lífi sínu vegna tilskipunarinnar. Lönd sem hýsa mikinn fjölda flóttamanna og finna sig yfirgefin af alþjóðasamfélaginu munu auka þvingaða brottflutninga á flóttafólki frá löndum sínum. Börn, konur og karlmenn, sem að öllu jöfnu ættu kost á að setjast að í Bandaríkjunum en eru föst í ólíðandi aðstæðum, munu kjósa að snúa aftur heim, þar sem þau eiga í hættu að týna lífi sínu eða sæta pyndingum.

Það er mikilvægt fyrir okkur að minna okkur á hvaða fólk þetta er. Árið 2016 voru 72% allra flóttamanna sem hlutu endurbúsetu í Bandaríkjunum konur og börn. Í mínum huga nær hugtakið „flóttamaður“ ekki yfir þá einstaklinga sem hafa komist yfir lífshættuleg höf og eyðimerkur og boðið manngerðum hættum birginn, í þeirri von að hefja nýtt líf í friði. Ég hef notið þeirra forréttinda að hitta sumt af þessu fólki og ávallt fyllst auðmýkt gagnvart seiglu þess frammi fyrir ólýsanlegu mótlæti. Hvaða land sem er, Bandaríkin þeirra á meðal, myndi verða auðugra byði það þau velkomin.

Þú hefur ef til vill tekið silkihanskana af, herra forseti – en í samstöðu við þá 21 milljón flóttamanna sem eru í heiminum í dag og þau samtök sem vinna við hlið fólks sem leitar sér alþjóðlegrar verndar – tökum við einnig okkar silkihanska af.

Til baka