Samningur ESB við Tyrkland: Uppskrift að örvæntingu

17.2.2017

Flóttamannasamningur Evrópusambandsins við Tyrkland hefur leitt til þess að þúsundir flóttamanna og farandfólks hírast við hörmuleg og hættuleg búsetuskilyrði á Grikklandi. Nú, þegar ár er liðið frá gerð samningsins, áréttar Amnesty International nauðsyn þess að önnur ríki taki ekki upp sambærilega samninga.

Samningur Evrópusambandsins við Tyrkland miðar að endursendingum hælisleitenda til Tyrklands, byggt á þeirri forsendu að landið sé öruggt fyrir þá hælisleitendur sem þangað eru sendir.

Í nýrri samantekt Amnesty International, A Blueprint for Despair, greina samtökin frá ólöglegum endursendingum hælisleitenda til Tyrklands sem brjóta gróflega gegn rétti þeirra samkvæmt alþjóðalögum.

„Samningur Evrópusambandsins við Tyrkland er stórkostlegt áfall fyrir þær þúsundir sem eru strandaglópar á grísku eyjunum í endalausri biðstöðu, í örvæntingu og hættu,” segir Gauri van Gulik, framkvæmdastjóri Evróputeymis Amnesty International.

„Það er falskur undirtónn í yfirlýsingum þjóðarleiðtoga Evrópu þegar þeir hampa samningnum og segja hann hafa skilað góðum árangri á meðan þeir loka augunum fyrir þeim óbærilega fórnarkostnaði sem samningurinn hefur leitt af sér með tilliti til þeirra sem þjást vegna hans.“

Hrúgað saman við nöturlegar aðstæður

Þegar samningurinn tók gildi voru allir flóttamenn og hælisleitendur sjálfkrafa færðir á varðhaldsstöðvar. Enda þótt strangt varðhaldskerfi sé ekki enn við lýði á Grikklandi getur það flóttafólk sem dvelur í flóttamannabúðum ekki yfirgefið grísku eyjarnar. Afleiðingin er sú að flóttafólk og hælisleitendur eru þvinguð til að búa við hörmuleg lífsskilyrði svo mánuðum skiptir í yfirfullum flóttamannabúðum, þar sem skortur er á heitu vatni, hreinlæti og næringu, ásamt aðgengi að heilbrigðisþjónustu.

Ástandið á grísku eyjunum er ekki aðeins niðurlægjandi heldur setur líf og velferð flóttafólks, hælisleitenda og farandsfólks í hættu. Að kvöldi dags þann 24. nóvember 2016 sprakk gashylki, sem notað var til eldamennsku, í Moria-flóttamannabúðunum á eyjunni Lesbos og leiddi til dauða 66 ára konu frá Írak og 5 ára barns.

Áþjánin og vosbúðin sem bíða hælisleitenda á grísku eyjunum eykur enn á ótta þeirra um eigið öryggi. Bágbornar aðstæður í flóttamannabúðunum, óvissa um framtíðina sem flóttafólk og hælisleitendur standa frammi, ásamt slæmum samskiptum við staðarbúa, hefur ýtt undir mikla spennu sem stundum hefur leitt af sér ofbeldi. Flóttafólk hefur einnig sætt haturstengdum árásum í Souda-flóttamannabúðunum í Chios.
17 ára sýrlenskur flóttamaður frá Aleppo lýsti árásinni svona:

„Þegar árásin átti sér stað óttuðumst við um líf okkar og hlupum burt úr flóttamannabúðunum…Fólk öskraði, börn grétu…Við þurfum ekki á þessu að halda í lífi okkar enn á ný…”

Konur finna sérstaklega fyrir skorti á öryggi á grísku eyjunum – þær eru oft þvingaðar til að búa í flóttamannabúðum og notast við sömu salernis- og sturtuaðstöðu og karlmenn. Margar konur og stúlkur hafa margsinnis kvartað yfir skorti á kynjaskiptri salernis- og sturtuaðstöðu, ásamt vöntun á almennilegri lýsingu. Þó nokkrar konur tjáðu Amnesty International að þær hefðu annað hvort sjálfar orðið fyrir eða orðið vitni að heimilis- eða kynferðislegu ofbeldi.

Sendum hælisleitendur áfram, ekki aftur til Tyrklands

Samningurinn um að senda hælisleitendur á grísku eyjunum aftur til Tyrklands hvílir á þeirri staðhæfingu að Tyrkland sé öruggt land fyrir þá.

Enda þótt enginn hælisleitandi hafi enn verið formlega sendur frá Grikklandi til Tyrklands, á þeirri forsendu að Tyrkland sé öruggt land, hefur Amnesty International skráð tilfelli þar sem hælisleitendur hafa verið sendir til baka í flýti án þess að hafa fengið tækifæri til að sækja um hæli á Grikklandi eða kæra endursendinguna, en slíkt brýtur í bága við alþjóðalög.
„Á meðan að Tyrkland er ekki öruggt land ætti Evrópusambandið að vinna með grískum yfirvöldum að því að flytja hælisleitendur á meginland Grikklands og ríkisstjórnir Evrópu ættu að gefa hælisleitendum á grísku eyjunum kost á að leita hælis í öðrum ríkjum Evrópu,“ segir Gauri van Gulik.

 „Enginn ætti að láta lífið í kuldanum við landamæri Evrópu. Þjóðarleiðtogar sem horfa til samnings Evrópusambandsins við Tyrkland sem forskrift að öðrum samningum við lönd eins og Súdan, Líbíu og Níger ættu að skoða þær hrikalegu afleiðingar sem Tyrklands-samningurinn hefur haft og láta það sér að kenningu verða: þetta ætti aldrei að endurtaka.“

Til baka